Innlent

Segir lögregluembættin ekki hafa sinnt skráningu og eyðingu gagna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Oftast var gripið til símahlerana eða skyldra úrræða vegna fíkniefna- og ofbeldismála.
Oftast var gripið til símahlerana eða skyldra úrræða vegna fíkniefna- og ofbeldismála. Vísir/Vilhelm

Í nýrri skýrslu ríkissaksóknara um eftirlit með símahlustun og skyldum úrræðum á síðasta ári eru lögregluembættin og yfirstjórn lögreglunnar harðlega gagnrýnd fyrir meðferð og vörslu upplýsinga. 

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag, þar sem jafnframt segir að lögregla og héraðssaksóknari hafi 304 sinnum gripið til símahlustunar eða skyldra úrræða. Af þessum tilvikum voru símahleranir 61 en gripið var til myndavélaeftirlits í níu tilvikum.

Í skýrslunni segir meðal annars að eftirlit ríkissaksóknara hafi leitt í ljós „„að verulega skortir á að lögreglustjórar og héraðssaksóknari fylgi lögum og fyrirmælum ríkissaksóknara um tilkynningar til sakborninga, eyðingu hlustunargagna og að halda skrá um þá sem hafa haft aðgang að upplýsingum sem aflað hefur verið með aðgerð skv. 80.-82. gr. [laganna um meðferð sakamála]. 

Að sama skapi hefur ríkislögreglustjóri ekki brugðist við í samræmi við það sem áformað var samkvæmt greinargerð með lögum nr. 103/2016, sem er forsenda fyrir því að ríkissaksóknari geti upplýst eftir á hver eða hverjir hafi haft aðgang að upplýsingunum.“

Í skýrslunni segir að veruleg vanhöld séu á að tilkynningar um aðgerðir séu skráðar í LÖKE, meðal annars vegna hirðuleysis. Þá sé skortur á skráningum um eyðingu gagna útskýrast af því að gögnum hafi í raun ekki verið eytt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×