Handbolti

Viktor Gísli þurfti að fara meiddur af velli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Viktor Gísli hefur spilað frábærlega að undanförnu.
Viktor Gísli hefur spilað frábærlega að undanförnu. Twitter@ehfcl

Landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson meiddist á olnboga í leik Nantes og Sélestat í frönsku úrvalsdeildinni um liðna helgi. Rétt rúmur mánuður er í þangað til HM í handbolta hefst en mótið fer fram í Svíþjóð og Póllandi.

Frá þessu er greint á vefnum Handbolti.is. Þar kemur fram að Viktor Gísli hafi staðfest meiðslin en viti þó ekki hversu lengi hann verði frá.

„Ég fékk mjög slæmt högg og er aumur í dag. Meira er ekki vitað sem stendur. Ég hitti lækni síðar í dag,“ segir á vefnum. Viktor Gísli meiddist á olnboga nú í haust og missti til að mynda af landsleikjum Íslands við Ísrael og Eistland í október. Hans, og íslenska landsliðsins vegna, eru meiðslin vonandi ekki svo alvarleg að þessu sinni.

Nantes vann öruggan sjö marka sigur á Grétari Ara Guðjónssyni og félögum í Sélstat um helgina, lokatölur 31-24. Líkt og í undanförnum leikjum var Viktor Gísli einkar öruggur í öllum sínum aðgerðum. Þegar hann þurfti að yfirgefa völlinn hafði hann varið tólf skot og var með 48 prósent markvörslu.

Viktor Gísli hefur spilað það vel undanfarnar vikur að aðdáendur Kiel eru þegar farnir að telja niður dagana þangað til hann verður samningslaus, sumarið 2025.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×