Handbolti

Seinni bylgjan: „Bara að Kiel hafi á­huga er risa fjöður í hattinn fyrir Viktor Gísla“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Viktor Gísli var magnaður í liðinni viku.
Viktor Gísli var magnaður í liðinni viku. Twitter@ehfcl

Það styttist í HM í handbolta sem fram fer í Póllandi og Svíþjóð. Ef Viktor Gísli Hallgrímsson heldur uppteknum hætti gæti hann orðið ein af stjörnum mótsins en farið var yfir magnaða frammistöðu hans í Meistaradeild Evrópu í nýjasta hlaðvarpsþætti Seinni bylgjunnar.

Hinn 22 ára gamli Viktor Gísli stóð vaktina í marki Nantes þegar liðið fékk stórlið Álaborgar í heimsókn. Markvörðurinn knái meira en 20 skot sá til þess að Nantes vann öruggan sjö marka sigur, 35-28.

„Hann varði 21 skot, var með 43 prósent markvörslu og varði þrjú vítaköst,“ sagði Stefán Árni Pálsson, um frammistöðu Viktors Gísla.

„Byrjaði leikinn ofboðslega sterkt, tók tvö dauðafæri frá Mikkel Hansen. Í einu vítinu sem hann varði þá tók Sebastian Barthold frákastið en hann varði aftur. Varði jafnt og þétt í gegnum allan leikinn, algjörlega mögnuð frammistaða hjá stráknum,“ bætti Ingvi Þór Sæmundsson við.

Í kjölfarið ræddi Stefán Árni aðeins þá staðreynd að Kiel sé að íhuga að fá Viktor Gísla yfir til Þýskalands, en þó ekki fyrr en árið 2025.

„Markverðirnir hjá Kiel hafa í gegnum söguna verið þeir bestu í heiminum,“ sagði Stefán Árni áður en Ingvi Þór fékk orðið.

„Viðurkenningin, bara það að Kiel hafi áhuga er risa fjöður í hattinn fyrir Viktor Gísla. Við höfum átt frábæra markmenn í gegnum tíðina en kannski engan sem hefur spilað á þessu allra hæsta getustigi.“

Að endingu ákváðu þeir félagar að opinbera sína uppáhalds handboltamarkverði allra tíma. Ingvi Þór valdi leikmann sem spilaði með HK um aldamótin á meðan Stefán Árni valdi leikmann sem spilaði lengi vel með ÍBV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×