Handbolti

„Smá heilahristingur en ekkert alvarlegt“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þorsteinn Leó Gunnarsson hefur verið einn besti leikmaður Olís-deildarinnar í vetur.
Þorsteinn Leó Gunnarsson hefur verið einn besti leikmaður Olís-deildarinnar í vetur. vísir/hulda margrét

Þorsteinn Leó Gunnarsson, leikmaður Aftureldingar, fór meiddur af velli í upphafi leiksins gegn Stjörnunni í Garðabænum í gær vegna höfuðmeiðsla. Hann segir þau þó ekki alvarleg.

Strax á 3. mínútu leiksins lenti Þorsteinn illa eftir að hafa lyft sér upp og skotið að marki Stjörnunnar. Hann kom ekkert meira við sögu í leiknum sem Mosfellingar unnu, 26-29. Hann bar sig þó ágætlega þegar blaðamaður Vísis tók púlsinn á honum í dag.

„Þetta var bara smá heilahristingur en ekkert alvarlegt. Ég verð fljótur að ná mér. Þetta er ekkert stórmál,“ sagði Þorsteinn. Hann veit þó ekki hvenær hann getur snúið aftur á völlinn.

Afturelding á tvo leiki eftir fram að jólum; gegn Val í Olís-deildinni á föstudaginn og HK í Coca Cola bikarnum fimmtudaginn 15. desember.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Þorsteinn fær höfuðhögg á tímabilinu. „Ég fékk nokkuð stórt högg fyrir rúmum tveimur mánuðum síðan en þetta er ekki nærri því jafn slæmt.“

Afturelding, sem hefur unnið átta af síðustu tíu leikjum sínum í deild og bikar, er í 3. sæti Olís-deildarinnar með sextán stig eftir tólf leiki. Þorsteinn er næstmarkahæsti leikmaður Aftureldingar í Olís-deildinni með 58 mörk í tíu leikjum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.