Handbolti

Ískaldur Óðinn tryggði Kadetten stig með flautumarki

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson hefur spilað stórvel að undanförnu.
Óðinn Þór Ríkharðsson hefur spilað stórvel að undanförnu. vísir/hulda margrét

Óðinn Þór Ríkharðsson var hetja Kadetten Schäffhausen þegar liðið gerði jafntefli við Suhr Aarau, 31-31, í svissnesku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Hann skoraði jöfnunarmark liðsins eftir að leiktíminn var runninn út.

Suhr Aarau náði forystunni þegar fimmtán sekúndur voru eftir, 30-31. Aðalsteinn Eyjólfsson, þjálfari Kadetten, tók í kjölfarið leikhlé. Eftir það fengu heimamenn vítakast.

Óðinn fór á vítalínuna og sýndi mikið öryggi og skoraði. Lokatölur 31-31. Óðinn skoraði átta mörk úr ellefu skotum. Hann nýtti öll þrjú vítin sín. Óðinn var næstmarkahæstur í liði Kadetten á eftir Luka Maros sem skoraði níu mörk.

Kadetten er í 2. sæti svissnesku deildarinnar með 28 stig eftir átján leiki. Kriens er á toppnum með þrjátíu stig og á leik til góða á Kadetten.

Óðinn gekk í raðir Kadetten frá KA í sumar. Hann byrjaði ekki að spila með liðinu fyrr en í lok október vegna ristarbrots en hefur farið á kostum að undanförnu og skorað grimmt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×