Handbolti

Segir að Egill hefði getað komist í allra fremstu röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Egill Magnússon leikur í dag með FH.
Egill Magnússon leikur í dag með FH. vísir/diego

Egill Magnússon hefði getað komist í allra fremstu röð í handboltanum. Þetta segir Einar Guðmundsson sem þjálfaði Egil í yngri landsliðum Íslands.

Egill var í lykilhlutverki í íslenska liðinu sem varð í 3. sæti á HM U-18 ára 2015. Meiðsli hafa hins vegar gert honum afar erfitt fyrir og urðu til þess að hann sneri snemma heim úr atvinnumennsku.

Einar og Sigursteinn Arndal voru þjálfarar bronsliðsins 2015. Einar var í viðtali í hlaðvarpi Seinni bylgjunnar þar sem hann talaði meðal annars um Egil.

„Egill var raun besti leikmaðurinn í þessu liði og Birkir Benediktsson. Þeir báru þetta uppi til að byrja enda bráðþroska og stórir og sterkir,“ sagði Einar.

„Egill hafði alla möguleika á að verða algjör toppmaður og á það ennþá ef hann nær sér af þessum meiðslum. Hann er með ofboðslega mikla hæfileika.“

En hverju langt hefði Egill getað náð ef ekki hefði verið fyrir meiðslin?

„Hann væri að spila í þýsku deildinni, alveg klárt mál. Hann vakti rosalega mikla athygli strax 16-17 ára. Hann hafði ofboðslega mikla líkamlega burði, mikil skytta, góður varnarmaður og hafði þetta allt en var alltaf hálf meiddur. En hann skilaði alltaf miklu og var lykilmaður í þessu liði,“ sagði Einar.

Hlusta má á hlaðvarp Seinni bylgjunnar í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×