Körfubolti

Körfu­bolta­kvöld um and­lausa frammi­stöðu KR: „Þetta er ekki boð­legt“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það gengur lítið upp hjá KR þessa dagana.
Það gengur lítið upp hjá KR þessa dagana. Vísir/Bára Dröfn

KR hefur byrjað tímabilið í Subway deild karla hræðilega og tapaði liðið enn einum leiknum á föstudagskvöld, að þessu sinni gegn Keflavík. Ekki nóg með að tapa leik eftir leik heldur virðist sem mörgum leikmönnum liðsins sé alveg sama. Körfuboltakvöld fór yfir síðasta leik KR og lét leikmenn liðsins einfaldlega heyra það.

„Eins og Helgi [Már Magnússon, þjálfari KR] kom inn á í viðtalinu þá áttu KR-ingar í talsverðum erfiðleikum með að stöðva hraða, getum eiginlega ekki kallað þetta hraðar sóknir. Þetta er í raun bara hraðaupphlaup, 1-2 sendingar fram og þeir eru komnir í layup. Getum við kallað þetta einbeitingarleysi?“ spurði Hörður Unnsteinsson, þáttastjórnandi þáttarins að þessu sinni.

„Þetta er algjört einbeitingarleysi, af því Helgi kemur inn á þetta fyrir leik að mig minnir. Segir að þetta sé eitthvað sem þeir þurfi að laga, svo byrja þeir leikinn svona. Leikmennirnir eru greinilega ekki að hlusta á þjálfarann sinn, taka ekki mark á honum eða eitthvað svoleiðis. Ein sending fram og það er enginn nálægt einu sinni,“ sagði Steinar Aronsson.

„Sjáið EC Matthews í þessum 2-3 klippum, þetta er ekki boðlegt sko. Ég væri til í að sjá gamla skólann og spretti á æfingu á morgun fyrir hvert hraðaupphlaup sem Keflavík skoraði úr,“ bætti Sævar Sævarsson við.

„Þetta er ekki eitthvað sem þú þarft að drilla einu sinni. Ef þú sérð mann hlaupa fram þá eltir þú hann. Þetta er ekki flókið,“ sagði Steinar jafnframt.

„Smá metnað til þess að, farðu allavega og lemdu einhvern niður. Ekki að ég ætli að fara mæla með því að menn fari að fella menn en sýnið smá áhuga á að maðurinn ykkar skori ekki hraðaupphlaup eftir hraðaupplaup,“ sagði Sævar bersýnilega pirraður.

Umfjöllun Körfuboltakvölds um andlaust lið KR má sjá í heild sinni hér að neðan. Þar er meðal farið yfir að liðið sé gott á pappír en það sé hreinlega eitthvað að. Spurning hvort það sé of mikið af lúxusleikmönnum?

Klippa: Körfuboltakvöld: Andlaust lið KRFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.