Körfubolti

Kyrie Irving segir að liðsfélagi hans frá Japan sé besti skotmaður í heimi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Yuta Watanabe hefur stimplað sig inn í NBA-deildinni á þessu tímabili.
Yuta Watanabe hefur stimplað sig inn í NBA-deildinni á þessu tímabili. AP/Eduardo Munoz Alvarez

Japanski körfuboltamaðurinn Yuta Watanabe hefur vakið mikla athygli í NBA-deildinni í vetur enda farið á kostum með liði Brooklyn Nets.

Einn af þeim sem hefur hrósað Watanabe er liðsfélagi hans Kyrie Irving.

„Hann er besti skotmaðurinn í heimi í dag. Tölfræðin sannar það akkúrat núna. Hann er núna besti skotmaðurinn í bestu deildinni í heimi,“ sagði Kyrie Irving.

Watanabe hefur nýtt 57 prósent þriggja stiga skota sinna á tímabilinu en hann er að skora 1,7 þrista í leik og lætur því alveg vaða fyrri utan þriggja stiga línuna.

Watanabe er nú með bestu þriggja stiga skotnýtinguna í allri NBA-deildinni en hann er að skorað 8,1 stig á 18,2 mínútum að meðaltali í leik.

Watanabe er 28 ára gamall og 203 sentimetra framherji sem hefur spilað í NBA frá 2018 en er á sínu fyrsta tímabili með Nets liðinu. Áður hafði hann spilað með Memphis Grizzlies og Toronto Raptors.

Næstu menn á eftir Watanabe þegar kemu að þriggja stiga skotnýtingu eru Josh Green hjá Dallas Mavericks (52,9%) og Damion Lee hjá Phoenix Suns (50,8%). Þessir þrír eru þeir einu sem hafa náð lágmörkunum og er yfir með yfir fimmtíu prósent nýtingu.

Fyrir áhugasama þá er Stephen Curry í 19. sætinu með 44,4 prósent nýtingu en Curry er að búinn að skora 88 þrista í 17 leikjum á tímabilinu eða 5,2 að meðaltali í leik.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


×