Körfubolti

„Núna erum við með Julio en vorum með Bjarna sjúkraþjálfara í vörninni í fyrra“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pétur Ingvarsson og Bjarni Geir Gunnarsson sjúkraþjálfari.
Pétur Ingvarsson og Bjarni Geir Gunnarsson sjúkraþjálfari. vísir/vilhelm

Pétur Ingvarsson, þjálfari Breiðabliks, var léttur í lund eftir sigurinn á Njarðvík, 91-88, í Smáranum í kvöld.

„Þetta er planið. Markmaðurinn er frammi allan leikinn. En við reynum að þreyta andstæðinginn í fjörutíu mínútur. Þeir verða ekkert þreyttir eftir tuttugu mínútur þannig við héldum bara áfram, hamast og vona það besta og það gekk í kvöld,“ sagði Pétur í leikslok.

Blikar voru duglegri að keyra á körfuna í seinni hálfleik en þeim fyrri.

„Við hittum ekki vel úr þriggja stiga skotunum. Við vorum með einhverja fimmtán prósent þriggja stiga nýtingu í fyrri hálfleik. Menn réðust á körfuna. Svo voru þeir með gott varnarlið inn á en lélegt varnarlið þannig að við komumst alltaf á körfuna. Og það sama með þá,“ sagði Pétur.

„Við náðum að saxa á forskotið og halda í við þá. Svo var þetta spurning í lokin að keyra okkar leik.“

Pétur skiptir ört en tekur ekki mörg leikhlé. Fyrir því er góð ástæða.

„Leikurinn er alltaf stopp í tvær mínútur þegar leikhlé er tekið. Við erum að reyna að keyra upp hraðann og ef stóru mennirnir hjá þeim fá tvær auka mínútur gefur það þeim aukið tækifæri á að fá hvíld og setja upp sóknirnar sínar. Við viljum það ekki heldur keyra eins og við getum,“ sagði Pétur. „Þetta er skiptiplanið hjá okkur meðan aðrir eru kannski ekki vanir þessu.“

Blikar hafa spilað betri vörn á þessu tímabili en því síðasta. „Við erum með aðeins öðruvísi lið. Núna erum við með Julio [Calver] en vorum með Bjarna [Geir Gunnarsson] sjúkraþjálfara í vörninni í fyrra. Hann er geggjaður sjúkraþjálfari en ekki góður varnarmaður. Það er munur að vera með 2,05 metra háan gaur en 1,90 metra sjúkraþjálfara í miðherjastöðunni,“ sagði Pétur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×