Handbolti

Dönum létt eftir kórónuveirukaos

Sindri Sverrisson skrifar
Kathrine Brothmann og allir aðrir leikmenn danska liðsins mega spila í undanúrslitunum í dag.
Kathrine Brothmann og allir aðrir leikmenn danska liðsins mega spila í undanúrslitunum í dag. Getty/Slavko Midzor

Eftir umtalsvert krísuástand í herbúðum danska kvennalandsliðsins í handbolta er nú orðið ljóst að allir leikmenn liðsins eru gjaldgengir í leikinn við Svartfjallaland í dag í undanúrslitum EM.

Danir fengu þessar góðu fréttir í gær eftir að allir leikmenn liðsins höfðu verið sendir í kórónuveirupróf.

Einn leikmanna liðsins, Kaja Kamp, hafði greinst með kóronuveiruna og þurft samkvæmt reglum mótsins að sæta einangrun. Hið sama átti við um aðstoðarþjálfarann Lars Jörgensen.

Samkvæmt frétt TV 2 var því mikið kórónuveirukaos í danska hópnum á miðvikudaginn en hraðpróf gáfu þó til kynna að ekki væru frekari smit í hópnum, og PCR-prófin í gær staðfestu það.

CT-gildi hjá Kamp eru nú auk þess nægilega há til þess að hún þarf ekki lengur að vera í einangrun en Jörgensen missir hins vegar af leiknum.

„Maður finnur bara fyrir miklum létti, bæði fyrir mig og leikmennina. Það hefur verið mikill erill svo það er gott að allt sé núna klárt. Leikmennirnir geta þá einbeitt sér alfarið að leiknum,“ sagði Morten Henriksen, íþróttastjóri danska handknattleikssambandsins, við TV 2.

Í hinum undanúrslitaleiknum mætast Noregur og Frakkland. Leikið verður um verðlaun á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×