Handbolti

Sigursteinn: Vissum af þessari statistík og ætluðum að breyta henni

Árni Gísli Magnússon skrifar
Sigursteinn Arndal, þjálfari FH.
Sigursteinn Arndal, þjálfari FH. Vísir/Hulda Margrét

FH bar sigurorð af KA, 27-30, í KA-heimilinu í dag. FH var sjö mörkum yfir í hálfleik en KA saxaði vel á forskotið í seinni hálfleik en FH-ingar náðu þó að klára leikinn með sigri.

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, var ánægður að ná loks í sigur í KA-heimilinu.

„Bara mjög ánægður með sigurinn. Frábær fyrri hálfleikur þar sem við spiluðum geggjaða vörn og sóknarleik líka. Við vissum svo sem alltaf að þessir leikir hérna leita oft í þetta, mikil læti og svona, að það kæmi eitthvað áhlaup en við stóðumst það sem betur fer.”

FH spilaði frábæra vörn í fyrri hálfleik og voru sjö mörkum yfir í hálfleik en það getur verið fljótt að breytast í KA-heimilinu.

„Það er nú ekkert langt síðan að Stjarnan var yfir með sjö hérna í hálfleik þannig að við töluðum bara um það að við þyrftum að halda áfram með okkar og sækja hlutina til okkar og vissum að að kæmi áhlaup en mjög gott að halda haus.”

KA minnkaði muninn tvisvar í eitt mark í seinni hluta síðari hálfleiks en FH-ingum tókst þá að bíta aftur frá sér og komast nokkrum mörkum yfir.

„Húsið kviknar en bara mjög ánægður að lauma inn nokkrum og þá kaupum við okkur smá forskot sem dugaði.”

Einar Bragi Aðalsteinsson var frábær í sóknarleik FH og skorað 7 mörk úr 11 skotum og lét einnig vel til sín taka í vörninni.

„Hann var mjög góður í sókn og vörn. Við tókum hann út af, hann var kominn með tvisvar tvær mínútur, var frábær í vörn í fyrri hálfleik en hann var bara góður eins og allt FH liðið.”

FH hafði ekki unnið KA í deildarleik fyrir norðan eftir endurkomu þeirra í efstu deild og kom síðasti deildarsigur þeirra fyrir norðan gegn Akureyri Handboltafélagi árið 2015 að undanskildum einum sigurleik við Þór.

„Við vissum af þessari statistík og ætluðum að breyta henni og gerðum það í dag”, sagði Sigursteinn að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×