Körfubolti

LeBron fór meiddur af velli í enn einu tapi Lakers

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
LeBron James brýtur á Paul George í Los Angeles-slagnum.
LeBron James brýtur á Paul George í Los Angeles-slagnum. getty/Harry How

LeBron James fór meiddur af velli þegar Los Angeles Lakers tapaði enn einum leiknum, nú fyrir grönnum sínum í Los Angeles Clippers, 114-101.

LeBron skoraði þrjátíu stig áður en hann fór meiddur af velli í Los Angeles-slagnum í nótt með verki í vinstri fæti. Auk stiganna þrjátíu tók LeBron átta fráköst og gaf fimm stoðsendingar á 32 mínútum.

Lakers hefur tapað fjórum leikjum í röð og ekkert lið í NBA-deildinni hefur unnið færri leiki í vetur. Lakers er með jafn marga sigra og Houston Rockets (2).

Paul George skoraði 29 stig fyrir Clippers sem hefur unnið tvo leiki í röð og er komið upp í 7. sæti Vesturdeildarinnar.

Milwaukee Bucks komst aftur á sigurbraut eftir fyrsta tap sitt á tímabilinu fyrir Atlanta Hawks á þriðjudaginn og vann Oklahoma City Thunder í tvíframlengdum leik, 132-136.

Giannis Antetokounmpo lék ekki með Milwaukee í nótt en liðið fékk framlag úr mörgum og óvæntum áttum, meðal annars frá Jevon Carter sem skoraði 36 stig sem er það mesta sem hann hefur gert í leik á ferlinum. Brook Lopez var með 24 stig og þrettán fráköst fyrir Milwaukee sem er á toppi Austurdeildarinnar með tíu sigra og eitt tap.

Brooklyn Nets vann borgarslaginn gegn New York Knicks örugglega, 112-85. Kevin Durant átti stórleik fyri Brooklyn; skoraði 29 stig úr aðeins nítján skotum, tók tólf fráköst og gaf tólf stoðsendingar.

Úrslitin í nótt

 • LA Clippers 104-101 LA Lakers
 • Oklahoma 132-136 Milwaukee
 • Brooklyn 112-85 NY Knicks
 • Orlando 94-87 Dallas
 • Charlotte 95-105 Portland
 • Indiana 119-122 Denver
 • Atlanta 119-125 Utah
 • Boston 128-112 Detroit
 • Toronto 116-109 Houston
 • Chicago 111-115 New Orleans
 • Minnesota 117-129 Phoenix
 • San Antonio 122-124 Memphis
 • Sacramento 127-120 Cleveland
NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.