Handbolti

Elvar allt í öllu þegar Esb­jerg-þrí­eykið lagði lands­liðs­þjálfarann

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elvar Ásgeirsson var frábær í kvöld.
Elvar Ásgeirsson var frábær í kvöld. Kolektiff Images/Getty Images

Áhugaverður leikur var í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld þar sem Ribe-Esbjerg og Fredericia Håndboldklub mættust. Þrír Íslendingar spila með fyrrnefnda liðinu og einn með því síðarnefnda sem og Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands, er þjálfari Fredericia.

Lærisveinar Guðmunds byrjuðu leik kvöldsins mun betur og voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, staðan þá 18-14. Eitthvað fór úrskeiðis hjá Fredericia í þeim síðari því Ribe-Esbjerg vann upp forskotið eftir því sem tíminn leið og komst að endingu yfir.

Fór það svo að Ribe-Esbjerg vann tveggja marka sigur, 34-32. Elvar Ásgeirsson var frábær í sigurliðinu en hann skoraði fimm mörk og gaf þrjár stoðsendingar. Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði eitt mark á meðan Ágúst Elí Björgvinsson varði tíu skot í markinu. Einar Þorsteinn Ólafsson komst ekki á blað hjá Fredericia en hann lék aðallega vörn í leiknum.

Eftir sigur kvöldsins er Ribe-Esbjerg í 6. sæti með 14 stig að loknum 11 leikjum. Lærisveinar Guðmundar eru sæti neðar með 11 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×