Körfubolti

Grinda­vík vann í Grafar­vogi og ÍR skoraði eitt stig í fyrsta leik­hluta gegn Haukum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Hekla Eik Nökkvadóttir í leik með Grindavík
Hekla Eik Nökkvadóttir í leik með Grindavík Vísir/Hulda Margrét

Grindavík gerði góða ferð í Grafarvog í Subway-deild kvenna í kvöld. Þær unnu þar 84-80 sigur gegn Fjölni. Þá unnu Haukar stórsigur gegn botnliði ÍR.

Fyrir leikinn í Dalhúsum voru bæði Fjölnir og Grindavík með fjögur stig í deildinni eftir sjö umferðir. Grindavík vann leik liðanna í fyrstu umferðinni en síðan þá hafa bæði lið bætt við sig leikmönnum og Fjölnir skipt um bandarískan leikmann.

Grindavík byrjaði betur og leiddi 21-12 eftir fyrsta leikhluta þar sem Fjölnisliðinu gekk bölvanlega að skora. Staðan í hálfleik var 37-27, Grindavik enn í bílstjórasætinu.

Í þriðja leikhluta fóru hlutirnir loks að ganga sóknarlega hjá Fjölnisliðinu. Þær unnu þann leikhluta 32-26, skoruðu semsagt fleiri stig í einum leikhluta en þær höfðu gert allan fyrri hálfleikinn.

Það munaði því aðeins fjórum stigum fyrir lokafjórðunginn. Þar var allt í járnum en það voru gestirnir sem að lokum fögnuðu 84-80 sigri.

Danielle Rodriguez var stigahæst hjá Grindavík með 27 stig og gaf þar að auki 7 stoðsendingar. Elma Dautovic kom næst með 17 stig og 13 fráköst.

Hjá Fjölni skoraði Dagný Lísa Davíðsdóttir 23 stig og Taylor Jones 21 stig.

ÍR skoraði eitt stig í fyrsta leikhluta

Þá unnu Haukar risasigur gegn botnliði ÍR þar sem sex leikmenn Hauka skoruðu yfir tíu stig í leiknum. Sigurinn var aldrei í hættu og réðust úrslitin í raun strax í fyrsta leikhluta þar sem ÍR skoraði aðeins eitt stig gegn þrjátíu stigum Hauka.

Sólrún Inga Gísladóttir var stigahæst Hauka með 21 stig og Greeta Uprus skoraði mest hjá ÍR eða 15 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×