Körfubolti

Bjarni: Varnarleikurinn lagði grunninn að sigrinum

Andri Már Eggertsson skrifar
Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, var pollrólegur á hliðarlínunni í kvöld.
Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, var pollrólegur á hliðarlínunni í kvöld. Vísir/Vilhelm

Haukar unnu sannfærandi þrettán stiga útisigur á Fjölni 58-71. Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, var ánægður með sigur kvöldsins.

„Varnarlega vorum við góðar nánast allan leikinn. Við mættum flatar inn í síðari hálfleik en náðum að endurstilla okkur og varnarlega vorum við sterkar fyrir utan það að Fjölnir tók mikið af sóknarfráköstum en við vorum grimmar á boltann sem varð til þess að Fjölnir tapaði 30 boltum sem var grunnurinn að sigrinum,“ sagði Bjarni Magnússon eftir leik. 

Eftir jafnan fyrsta leikhluta komust Haukar tíu stigum yfir um miðjan annan leikhluta og litu aldrei um öxl eftir það.

„Tinna Guðrún kom með öflugan sprett. Okkur tókst að búa til forskot og við litum aldrei til baka eftir það þar sem okkur tókst að halda dampi fyrir utan þessar fyrstu þrjár mínútur í þriðja leikhluta.“

Bjarni var ánægður með hvernig Haukar svöruðu áhlaupi Fjölnis í upphafi seinni hálfleiks. 

„Eftir að við tókum leikhlé þá náðum við að endurstilla okkur og við fórum aftur í þá hluti sem við vorum að gera vel. Ég veit ekki hvort við höfum fengið okkur rjómaköku í hálfleik þar sem við vorum flatar og hægar í byrjun seinni hálfleiks.“

Varnarleikur Hauka var frábær um miðjan seinni hálfleik þar sem Fjölni tókst ekki að gera körfu í tæplega sjö mínútur.

„Við vorum að tala vel og skipta þegar við vildum og við þvinguðum þær í erfið skot. En á móti gáfum við þeim nokkur tækifæri í sömu sókninni og það fór óþarflega mikil orka í varnarleikinn en ég var mjög sáttur með viljann og vinnusemina,“ sagði Bjarni Magnússon að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×