Skoðun

Verða konur fyrir for­dómum í heil­brigðis­kerfinu?

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Ég hef átt fjölmörg samtöl við vinkonur mínar og kunningjakonur um viðmót í heilbrigðiskerfinu og hvort það kunni að vera litað af kynjuðum staðalmyndum. Þegar ég komst að því að nýlega hefði heilsufar á Íslandi verið kortlagt í úttekt á vegum heilbrigðisráðuneytisins út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum, ákvað ég að beina fyrirspurn að heilbrigðisráðherra um eftirfylgni vegna þeirrar vinnu. Í byrjun þessa þingvetrar fékk ég svar frá ráðherra við fyrirspurn minni um kynja- og jafnréttissjónarmið í heilbrigðisþjónustu. Það er skemmst frá því að segja að svar heilbrigðisráðherra er ekki mjög ítarlegt. Ráðherra telur það m.a. viðvarandi verkefni og réttlætismál að tryggja jafnræði og jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð kyni, og telur unnið að því að kynjasjónarmið séu einn af þeim þáttum sem mikilvægt sé að taka tillit til við skipulagningu og veitingu heilbrigðisþjónustu.

Mér varð hugsað til þessarar fyrirspurnar þegar ég las grein á dögunum frá formanni Samtaka um endómetríósu, sem er sjúkdómur sem leggst á allt að 10% kvenna. Þar segir hún frá því að á einu ári hafi 124 konur greitt „að meðaltali 862 þúsund krónur úr eigin vasa til að öðlast betri líðan og viðunandi lífsgæði“, en konurnar hafa leitað til einkaaðila til að fá meðhöndlun við sjúkdómnum. Hún veltir því upp hvort það sé tilviljun að greiðsluþátttaka hins opinbera vegna sjúkdóms sem leggst að mestu leyti á konur sé svona takmörkuð.

Í vikunni ræddi ég þessa stöðu við heilbrigðisráðherra á Alþingi þar sem ég spurði hann hvort þessi staða væri ásættanleg og hvernig unnið hefði verið að styttri greiningartíma og styttri biðtíma eftir meðhöndlun endómetríósu. Ráðherrann greindi frá því að vinna við að koma á jöfnu aðgengi sjúklinga með endómetríósu að nauðsynlegri sérfræðiþjónustu væri á lokametrunum. Hann vonaðist til að samningur yrði gerður á vegum Sjúkratrygginga, en hann teldi Guðlaug Þór hafa stigið gott skref þegar hann sem heilbrigðisráðherra leiddi breytingar með setningu laga um sjúkratryggingar.

Í fyrrnefndri úttekt um heilsu út frá jafnréttis- og kynjasjónarmiðum kemur fram að konur virðast búa við verra heilsufar og lakari lífsgæði en karlar og að kynjaðir áhrifaþættir hafi áhrif á heilsu og líðan kynjanna. Það er mikilvægt að auka við jafnrétti kynjanna þegar kemur að heilsu og líðan. Þegar vinna heilbrigðisráðherra í þágu sjúklinga með endómetríósu ber loks árangur verður mikilvægum jafnréttisáfanga náð.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.


Tengdar fréttir

Greiða 107 milljónir úr eigin vasa

Kæri heilbrigðisráðherra. Hér fyrir neðan er listi yfir konur sem hafa greitt háar fjárhæðir fyrir aðgerðir sem íslenskum lögum samkvæmt ættu að vera þeim að kostnaðarlausu. Skyldi það vera tilviljun að greiðsluþátttaka vegna sjúkdóms sem leggst að mestu leyti á þá sem fæðast með leg sé svo takmörkuð að á einu ári greiði 124 konur að meðaltali 862 þúsund krónur úr eigin vasa til að öðlast betri líðan og viðunandi lífsgæði?



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×