Handbolti

Stjarnan á­fram með fullt hús stiga eftir að rót­bursta HK

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Helena Rut átti góðan leik í dag.
Helena Rut átti góðan leik í dag. Vísir/Hulda Margrét

HK sá aldrei til sólar þegar liðið heimsótti Stjörnuna í Olís deild kvenna í handbolta í dag, lokatölur 41-26 Stjörnunni í vil.

Eins ótrúlega og það hljómar þá komst HK 2-0 yfir í leiknum en eftir það tók Stjarnan öll völd á vellinum. Tvö mörk frá Kópavogsliðinu undir lok fyrri hálfleik þýddi þó að munurinn var aðeins sex mörk í hálfleik, staðan þá 19-13.

Í síðari hálfleik skoraði heimaliðið hvert markið á fætur öðru. Þegar lokaflautið gall var munurinn orðinn fimmtán mörk, lokatölur 41-26.

Lena Margrét Valdimarsdóttir átti frábæran leik í liði Stjörnunnar og skoraði 12 mörk. Þar á eftir kom Helena Rut Örvarsdóttir með átta mörk. Darija Zecevic átti svo flottan leik í marki Stjörnunnar og varði 18 skot eða 45 prósent skota HK sem rötuðu á markið.

Hjá HK var Embla Steindórsdóttir markahæst með sjö mörk á meðan Ethel Gyða Bjarnasen varði átta skot í markinu.

Staðan í deildinni er þannig að Stjarnan er á toppnum með fjóra sigra í fjórum leikjum en Valur getur jafnað Stjörnukonur að stigum með sigri í Vestmannaeyjum á miðvikudaginn kemur. HK er hins vegar án stiga á botni deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×