Körfubolti

Körfu­bolta­kvöld: Áttu vart orð yfir loka­sókn Grinda­víkur þegar tólf sekúndur voru til leiks­loka

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það virðist sem allir í Grindavík hafi haldið að það væri 1,2 sekúnda eftir af leiknum þegar það voru í raun 12 sekúndur eftir.
Það virðist sem allir í Grindavík hafi haldið að það væri 1,2 sekúnda eftir af leiknum þegar það voru í raun 12 sekúndur eftir. Körfuboltakvöld

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, tók lokasókn Grindavíkur í eins stigs tapi gegn Val í Subway deild karla alfarið á sig í viðtali eftir leik. Farið var yfir sóknina í Körfuboltakvöldi.

Jóhann Þór ræddi við Stöð 2 Sport og Vísi eftir leik. Þar sagðist hann hafa haldið að það væri minna eftir en raun bar vitni. Hann taldi leikinn ekki hafa tapast á þessu augnabliki en tók samt sem áður sökina alfarið á sig og sagði „það var bara klúður hjá mér.“

„Þetta viðtal, hann virðist hafa haldið það væri 1,2 sekúnda eftir af leiknum,“ byrjar Kjartan Atli Kjartansson, þáttastjórnandi, á að segja. „Og enginn segir eitthvað,“ bætir Kristinn Geir Friðriksson inn í.

„Ég er bara gapandi yfir þessu,“ sagði Sævar Sævarsson svo en segja má að enginn af þremenningunum hafi átt orð yfir ákvörðun heimamanna. 

„Allt við þetta kerfi lítur út fyrir að þeir hafi haldið að það væri 1,2 sekúnda eftir,“ sagði Kjartan Atli. „Ef þeir hafa haldið að það væri 1,2 sekúnda eftir þá er þetta frábær sókn,“ bætti Sævar við en í spilaranum hér að neðan má augljóslega sjá að það eru 12 sekúndur eftir af leiknum þegar sóknin hefst.

Klippa: Körfuboltakvöld: Orðlausir yfir lokasókn Grindavíkur

„Þjálfarateymið gerir risamistök. Sem leikmaður á [Gkay Gaios] Skordilis að vita betur. Af hverju er ég að taka þrist þegar það eru 12 sekúndur eftir,“ sagði Kristinn Geir áður en Sævar sagði einfaldlega að hann tryði því ekki að allir leikmenn Grindavíkur og þjálfarateymi hafi haldið að það væri 1,2 sekúnda eftir á klukkunni.

Sóknina sem og umræðu Körfuboltakvölds má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×