Körfubolti

Philip Jalalpoor í gin ljónsins eftir bara einn leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Philip Jalalpoor í sínum eina leik í Subway deildinni sem var á móti ÍR í Skógarselinu.
Philip Jalalpoor í sínum eina leik í Subway deildinni sem var á móti ÍR í Skógarselinu. Vísir/Bára Dröfn

Íraninn Philip Jalalpoor hefur spilað sinn fyrsta og síðasta leik fyrir Njarðvík í Subway deild karla í körfubolta. Jalalpoor var ekki með Njarðvíkurliðinu í sigri á nýliðum Hattar á Egilsstöðum í gærkvöldi.

Njarðvíkingar tilkynntu það síðan eftir leikinn að samningi Philip Jalalpoor hefði verið rift eftir fyrsta leikinn þar sem Njarðvík tapaði mjög óvænt á móti ÍR í Breiðholtinu.

Njarðvíkurliðið hefur spilað tvo fyrstu leiki sína á útivelli og leikmaðurinn náði því ekki að spila heimaleik með félaginu sínu áður en hann þurfti að taka pokann sinn. Tapið á móti ÍR var hins vegar mikið áfall fyrir Njarðvíkinga og kallaði á tafarlausar breytingar.

„Phil þótti ekki hafa hentað liðinu nægilega vel en hann spilaði einn leik fyrir félagið í deildinni og þó nokkra á undirbúningstímabilinu,“ sagði í frétt á heimasíðu Njarðvíkur.

Jalalpoor er 29 ára leikstjórnandi. Í eina leiknum sínum í Subway deildinni þá var hann með 7 stig á 22 mínútum en hitti bara úr einu af fimm þriggja stiga skotum sínum og náði ekki að gefa stoðsendingu.

Jalalpoor var stoðsendingahæstur í austurrísku deildinni 2020 en hafði spilað með þýska liðinu Medi Bayreuth undanfarin tvö tímabil. Hann spilaði með íranska landsliðinu á Ólympíuleikunum í Tókýó haustið 2021.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×