Skoðun

Börn eru að kalla eftir hjálp

Sigurður Sigurðsson og Eyrún Eva Haraldsdóttir skrifa

Mörgum brá við umfjöllun í Kastljósi í gær þar sem heyra mátti upptöku af skilaboðum þar sem börn voru að áreita einstakling fyrir að vera hinsegin. Svívirðingarnar og rangfærslurnar sem börnin létu hafa eftir sér á upptökunni voru átakanlegar. Margir halda eflaust að svona skilaboð séu undantekningar, en svo er ekki. Ljót skilaboð, áreiti og skammir eru hluti af daglegu lífi margra barna og mörg upplifa að þau geti ekki leitað til neins eftir hjálp.

Tæknin og stafrænir miðlar eru stór hluti af okkar daglega lífi, líka barna. Í fyrstu voru það einungis fullorðnir einstaklingar sem nýttu sér netið að einhverju ráði, en í dag er mörgum börnum hleypt inn á netið og miðla, löngu áður en þau eru komin með aldur og þroska til, án leiðbeininga um hvernig þau eiga að hegða sér og hvað ber að varast. Við getum líkt þessu við umferðina. Myndum við senda börnin okkar út í umferðina án þess að kenna þeim umferðarreglurnar fyrst? Líklega ekki. En við sendum þau á netið, án þess að kenna þeim eða ráðleggja þeim og gefum okkur ekki tíma til að kynna okkur þeirra veröld á netinu til að sjá hvernig þeim gengur að fóta sig.

Það er skylda okkar að bregðast við

Hlutverk foreldra þegar kemur að því að ala upp börnin sín sem jákvæða stafræna borgara er stórt og mikið og það er líka flókið. En það þarf að taka umræðuna við börn og takast á við ábyrgðina sem foreldri. Setja mörk, setja ramma og reglur. Ekki síður verðum að vera til staðar og leiðbeina þeim og við verðum að trúa börnum ef eitthvað kemur upp á á netinu og ekki gera lítið úr upplifun þeirra.

Við hjá Heimili og skóla, sem rekum SAFT verkefnið, höfum ferðast víða til að fræða og ræða við börn og fullorðna um hegðun á netinu. Við erum einnig með ráðgefandi ungmennaráð, UngSAFT, sem veitir okkur mikilvæga sýn inn í heim ungmenna og nethegðun þeirra. Hvert sem við förum tala börn um það sama. Þau vilja meiri fræðslu og þau vilja betri ramma. Þau vilja nefnilega geta átt í samskiptum og notað miðla á jákvæðan hátt, án þess að upplifa það áreiti og þann viðbjóð sem berst sumum þeirra, jafnvel á hverjum degi. Oft á tíðum eru það börnin sem eru hneyksluð á okkur fullorðna fólkinu, því við gerum okkur ekki grein fyrir hversu stórt vandamálið er og erum því ekki að bregðast við. Það er kominn tími á að við hlustum á ákallið frá börnum og ungmennum. Það er skylda okkar að bregðast við og hjálpa börnunum okkar.

Hverju erum við að missa af?

Mikilvægasta verkfærið þegar leiðbeina á börnum og öðrum um netöryggi og hegðun á netinu er fræðsla. Við sem samfélag þurfum að auka fræðslu og umræðu um miðla og netnotkun til barna og ungmenna, en ekki síður þurfum við að hjálpa foreldrum að fræða börnin sín. Til að tryggja að öll börn og foreldrar fái uppbyggilega og jákvæða fræðslu um hvernig við högum okkur eins og manneskjur á netinu þarf að leggja inn fjármagn og auka getuna. Þessi mikilvægi málaflokkur á það til að gleymast og er jafnvel meðhöndlaður sem gæluverkefni af sumum ráðamönnum og skólafólki. Við þurfum að stíga inn og bregðast strax við neikvæðum áhrifum sem börn verða fyrir á netinu. Það getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir þau ef við gerum það ekki. Við missum af skaðlegri hegðun og áhrifum á börn, missum af börnum í vanda, missum börn.

Á hverjum degi berast okkur hjá SAFT neyðarköll frá skólum og foreldrum vegna neikvæðrar hegðunar barna og ungmenna á netinu og áreitis sem þau verða fyrir. Staðan er sú að við eigum erfitt með að sinna öllum þessum neyðarköllum. Lítill tími er til að sinna forvörnum þar sem starfsfólk SAFT er stöðugt á vettvangi að slökkva elda. Það er ljóst að samfélagsins bíður stórt verkefni. Ætlum við sem samfélag að bregðast við og hjálpa börnum að fóta sig í stafrænum heimi – eða ætlum við að hundsa ákall þeirra? Þau eru að kalla eftir hjálp.

Höfundar eru sérfræðingar í miðlanotkun barna og ungmenna hjá SAFT.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×