Skoðun

Á­netjaðist sauma­klúbb og kerlingum

Berglind Hilmarsdóttir skrifar

Lék tveim skjöldum

Í einlægu viðtali fyrir stuttu viðurkenndi leikmaður íþróttafélagsins Gauka að hafa ánetjast saumaklúbb, varð altekinn fíkn sem dró hann að glaðlegum hlátri, sögum af barnauppeldi, heilsu og heimsmálum. Hann tók þátt í ýmis konar atferli eins og stofnun gönguhóps og utanlandsferð. Jafnvel fjársöfnun til góðgerðamála. Áður en hann vissi sat hann með prjóna og fitjaði upp á sokkum fyrir Úkraínska hermenn. Hann sökk dýpra með hverri viku, vissi að hann braut trúnað við leikfélaga sína í Gaukum. Lék tveim skjöldum, var leikmaður í stuttbuxum með númer á bakinu á daginn en saumaklúbbskerling að kvöldlagi.

Feluleikurinn endar

Feluleikurinn gekk upp í heilt ár og sjálfstraustið óx, hann lifði tvöföldu lífi og komst upp með það. Honum fannst hann ósnertanlegur. En þá kom höggið. Á síðustu æfingu fyrir úrslitaleik kom einn félaginn auga á einkennilegan hlut í íþróttatösku hins ógæfusama leikmanns. Upp úr rósóttum poka í töskunni stóðu prjónar með hálfkláruðum ullarsokk. Það sló þögn á liðið. Heyra mátti saumnálina sem rann úr pokanum detta.

Með hjartað á réttum stað

Þjálfarinn skipaði mönnum sínum fram á völlinn, þeir kláruðu æfinguna og héldu svo krísufund. „Eruð þið saumaklúbbskerlingar?“ þrumaði þjálfarinn með grátstaf í kverkunum. Herti sig upp og pírði augun karlmannlega á eiganda prjónanna. „Nú leggur þú þig fram með öllu þínu hjarta“ sagði hann og lagði lófann á stað fyrir neðan kviðarhol. Leikmenn lutu höfði og vissu að Eldibrandur þjálfari myndi leiða þá í gegnum þetta erfiða tímabil.

Garndeildin í Hagkaupum erfiðust

Hinn ógæfusami leikmaður gekkst við sinni fíkn, fór í endurhæfingu, fékk sponsor sem hann hringir í ef hann lendir í garndeildinni í Hagkaupum eða hittir glaðværar saumaklúbbskerlingar sem knúsa hann mjúklega og ilma vel. Hlýleg kvöld með kertaljósum og sögum af sorgum, gleði og sigrum í lífinu toguðu í hann svo eina leiðin var að eyða öllum kerlingunum úr símanum til að fá ekki fleiri skilaboð um hlaupahóp eða gönguferð á Esjuna, sem hann átti erfitt með að standast.

Víti til varnaðar

Hann er búinn að henda prjónunum (ætlaði að gefa þá ásamt garninu en taldi það of kerlingarlegt) og þakkar Eldibrandi þjálfara fyrir að hafa bjargað sér. Í stað saumaklúbbsbrandara segir hann núna aðra brandara. Er aftur orðinn harður nagli sem lífgar við bolta á vellinum og leikur andstæðinga grátt. Rósapokinn var hengdur upp í höfuðstöðvum klúbbsins sem víti til varnaðar ungum drengjum.

Höfundur er bóndi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×