Körfubolti

„Þetta er geggjað, algjörlega geggjað og ég vona að þetta verði bara svona í allan vetur“

Siggeir F. Ævarsson skrifar
Hjalti Þór Vilhjálmsson, þhálfari Keflvíkinga, var gríðarlega sáttur með sigurinn í kvöld.
Hjalti Þór Vilhjálmsson, þhálfari Keflvíkinga, var gríðarlega sáttur með sigurinn í kvöld. vísir/vilhelm

Það var harla lítill haustbragur yfir leik Keflavíkur og Tindastóls í kvöld og í raun nærtækara að tala um úrslitakeppnisstemmingu, slík var gleðin í Keflavík í kvöld. Fullt hús í Blue höllinni og boðið upp á æsispennandi leik fram á lokasekúndurnar þar sem hvorugt lið gaf þumlung eftir. Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur, tók undir þessi orð og sagði leikinn hafa einfaldlega verið frábæran.

„Frábær leikur. Þeir voru rosalega „agressívir“ og við vissum svo sem að þeir yrðu það en vorum klárlega ekki tilbúnir í það til að byrja með. Svo fórum við bara aðeins „control-a“ okkur sjálfa og þá fór þetta að falla okkur megin.“

Tindastólsmenn misstu Adomas Drungilas útaf í upphafi seinni hálfleiks en hann var rekinn útúr húsi fyrir olnbogaskot í höfuð Dominykas Milka. Gestirnir voru þá orðnir ansi fáliðaðir í miðherjastöðunni en Sigurður Gunnar Þorsteinsson er meiddur. Keflvíkingum tókst þó ekki að nýta sér þessa stöðu að neinu marki.

„Við fórum bara alveg í baklás við að reyna að nýta okkur þetta. Þeir fóru að tvídekka og við fórum alltof mikið að hugsa bara um það að henda boltanum inn í. Í staðinn fyrir að fá boltann í betra flæði erum við að henda honum inn í teig og þeir tvídekka og við vorum bara í veseni með það. Við þurfum aðeins að skoða það og fá boltann aðeins nær fyrir stóru strákana ef þetta gerist aftur.“

Það var eins og áður sagði frábær stemming í Keflavík í kvöld, og Hjalti var að vonum sáttur og kallar eftir því að það verði jafnvel mætt á alla leiki í vetur.

„Þetta er geggjað, algjörlega geggjað og ég vona að þetta verði bara svona í allan vetur. Þetta er bara gleði og stemming, bara geggjað.“

Keflvíkingar eru með ansi breiðan hóp í vetur, en Hjalti sagði að hópurinn væri í raun dýpri en leikurinn í kvöld gaf til kynna, og sendi hrós á þá leikmenn sem fengu ekki að koma við sögu í kvöld.

„Við erum með mjög góða breidd já. Við erum í raun með dýpri bekk en þetta í rauninni. Við erum alveg með jafnvel 12 leikmenn sem geta spilað í þessari deild. Það er bara hrós á þá sem komu ekki inn á að halda haus, halda áfram og njóta þess að spila með okkur.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.