Körfubolti

Pavel hættur: „Hef átt nokkur rifrildi við körfuboltann í gegnum tíðina“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Pavel endaði ferilinn á Íslandsmeistaratitli með Val í vor.
Pavel endaði ferilinn á Íslandsmeistaratitli með Val í vor.

Körfuboltamaðurinn Pavel Ermolinskij hefur greint frá því í bréfi til Borgnesinga sem birt er í Skessuhorni, fréttaveitu Vesturlands, að hann sé hættur í körfubolta eftir farsælan feril.

Pavel steig sín fyrstu skref í körfuboltanum í Borgarnesi en spilaði sína fyrstu meistaraflokksleiki með ÍA árið 1998, þá aðeins 11 ára gamall. Hann lék svo með Skallagrími 2001 til 2002 áður en hann hélt út í atvinnumennsku. Hann lék með Vichy í Frakklandi 2003 til 2004 en lék í kjölfarið fyrir fimm mismunandi lið á Spáni frá 2004 til 2010.

Árið 2010 kom hann heim í KR og varð Íslands- og bikarmeistari með liðinu vorið 2011. Hann fór þá til Svíðþjóðar og lék með Sundsvall Dragons og Norrköping Dolphins frá 2011 til 2013 áður en hann kom aftur heim.

Hann lék með KR á gullaldarskeiði félagsins og vann sex Íslandsmeistaratitla með liðinu frá 2014 til 2019, auk þess að vinna tvo bikartitla. Hann lauk ferlinum með Val hvar hann lék frá 2019 þar til í vor en lauk ferlinum á því að vinna sinn áttunda Íslandsmeistaratitil á ferlinum, þegar Valur varð Íslandsmeistari í vor.

Hann var valinn besti leikmaður Íslandsmótsins 2011 og 2015 og lék með íslenska landsliðinu frá 2004 og fór með liðinu á EuroBasket 2015 og 2017.

„Endalaus tækifæri til þess að búa til frábærar minningar“

Pavel ritaði grein í Skessuhorni til að greina frá ákvörðun sinni þar sem hann segir mótunarár sín í Borgarnesi hafa reynst sér dýrmæt.

„Nú er komið að því að ég hef ákveðið að segja skilið við þessa íþrótt sem leikmaður. Ég hef átt nokkur rifrildi við körfuboltann í gegnum tíðina en hann brosti alltaf þegar ég kom skömmustulegur til að biðja hann afsökunar. Hann tók bara utan um mig og bauð mér upp á endalaus tækifæri til þess að búa til frábærar minningar,“ segir Pavel í grein sinni í Skessuhorni.

„Á þessum tímamótum verð ég enn meðvitaðri um að síðustu tveir áratugir hefðu farið á allt annað veg ef ekki hefði verið fyrir Borgarnes og mótttökurnar sem ég fékk þar, þá 5 ára gamall. Takk Borgarnes,“ segir Pavel að endingu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×