Handbolti

„Ég var ekki sáttur með þetta rauða spjald “

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Hauka
Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Hauka Vísir: Hulda Margrét

„Ég er ánægðastur með það, úr því sem komið var, að við náum að snúa þessu við með því að fara í framliggjandi vörn og vorum agaðir og með smá trikki frá Binna í horninu að ná að jafna leikinn,“ sagði Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Hauka, eftir jafntefli á móti Stjörnunni í kvöld. Haukar voru tveimur mörkum undir þegar tæplega fimm mínútur voru til leiksloka en tókst, með klókinum að jafna leikinn, 29-29. 

„Ég er ánægðastur með síðustu vörnina, hvernig hún hélt, að menn voru ekkert að veigrast við að taka ábyrgð og Stefán Huldar náttúrulega frábær í markinu, annan leikinn í röð.“

„Sóknarleikurinn var góður í fyrri, það kom mjög mikið hikst á hann í seinni. Maður hefði mátt skipta meira, svona eftiráhyggja en mér fannst við eiga hægri vænginn inni sóknarlega. Adam kom sterkur inn, mátti vera meira en þetta hugsar maður alltaf þegar maður fær ekki bæði stigin. Ég er ánægður með útkomuna úr því sem komið var. Ég var ekki sáttur með þetta rauða spjald og víti miðað við hvernig þetta var kynnt fyrir okkur. Ef boltinn breytir ekki um stefnu á þetta að vera bara mark og það skiptir máli finnst mér.“

Þegar um stundarfjórðungur var eftir fengu Haukarnir víti og Stefán Rafn fór á punktinn gegn Arnóri Frey Stefánsyni. Það gekk ekki betur en svo að boltinn fór í höfuðið á Arnóri sem lá óvígur eftir og uppskar Stefán rautt spjald. 

„Boltinn fer í höfðið á honum, á hliðina en boltinn breytir ekki um stefnu. Boltinn er tekinn frá hægri til vinstri. Ég hefði allavega viljað að þeir hefðu kíkt á þetta í sjónvarpi fyrst að allir eru hérna á staðnum og allt er í boði. Ef þeir höfðu sömu skoðun þá er ekkert við því að segja en ég hefði viljað að þeir hefðu skorað VAR-ið.“

Haukar fá Aftureldingu í heimsókn í næstu umferð og vill Rúnar að þeir stækki góðu kaflana og spili fjölbreyttari sóknarleik. 

„Við þurfum að stækka góðu kaflana. Við byrjuðum leikinn ekkert sérstaklega vel. Við spiluðum fanta varnarleik á tímabili. Stefán er náttúrulega að koma inn eftir margra vikna pásu og það þarf aðeins að ná honum í betra form. Sóknarleikurinn má vera aðeins fjölbreyttari fyrir minn smekk en þetta er allt í lagi og þetta er allt á réttri leið.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.