Handbolti

„Fannst halla mjög mikið á okkur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jónatan Magnússon hafði eitt og annað við dómgæsluna gegn Val að athuga.
Jónatan Magnússon hafði eitt og annað við dómgæsluna gegn Val að athuga. vísir/vilhelm

Jónatan Magnússon, þjálfari KA, var svekktur með lokamínútur fyrri hálfleiks í tapinu fyrir Val í kvöld, 26-18. Honum fannst Valsmenn fá að ganga full hart fram í vörninni.

„Við fórum illa að ráði okkar síðustu mínúturnar í fyrri hálfleik, að vera ekki nær þeim en fjögur mörk,“ sagði Jónatan við Vísi í leikslok.

„Vörnin var mjög góð en þetta var erfitt í sókninni. Þeir eru harðir. Ég þarf að skoða þetta aftur en þeir fara 3-4 sinnum í andlitið. Ég þekki kannski ekki reglurnar, hvenær það er eitthvað meira en tvær mínútur, en þetta stakk í augun. Við ætluðum að mæta þeim af hörku, vitandi að þeir eru grimmir. Mér fannst halla mjög mikið á okkur, ef ég á að vera alveg hreinskilinn.“

KA skoraði ekki nema átján mörk í leiknum og skotnýtingin var aðeins 43 prósent.

„Sóknin var ekki góð og við gerðum okkur þetta erfitt. En það vantaði samt ekkert upp á baráttuna og vörnin og markvarslan var góð. Ég hefði viljað vera nær þeim,“ sagði Jónatan.

Valur skoraði síðustu fjögur mörk fyrri hálfleiks og breytti stöðunni úr 7-7 í 11-7. Jónatan fannst það svekkjandi eftir að hafa þraukað þrátt fyrir að hafa ekki skorað í þrettán mínútur.

„Sóknin var þetta erfitt allan tímann. Við prófuðum sjö á sex og hefðum kannski átt að gera meira af því. En við hefðum viljað vera með betri stöðu í hálfleik og koma betur inn í seinni hálfleikinn til að gera þetta að leik,“ sagði Jónatan að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.