Körfubolti

Fíflagangur eða leið til að hafa óeðlileg áhrif?

Sindri Sverrisson skrifar
Sigurði Gunnari Þorsteinssyni og félögum í Tindastóli er spáð afar góðu gengi í vetur af flestum, en tveir spáðu liðinu neðsta sæti í árlegri spá fyrir Subway-deildina.
Sigurði Gunnari Þorsteinssyni og félögum í Tindastóli er spáð afar góðu gengi í vetur af flestum, en tveir spáðu liðinu neðsta sæti í árlegri spá fyrir Subway-deildina. vísir/bára

Í hópi þjálfara, fyrirliða og formanna félaganna tólf í Subway-deild karla eru ákveðnir aðilar sem spáðu algjörlega á skjön við kollega sína í spá um gengi liðanna í vetur, sem birt var í dag.

Spáin um lokastöðu í Subway-deildinni er árlegur viðburður þar sem hitað er upp fyrir komandi keppnistímabil en ný leiktíð hefst eftir viku.

Keflavík er spáð deildarmeistaratitlinum en Hetti og ÍR er spáð falli. Miðað við gengi liða á síðustu leiktíð, og félagaskipti í sumar, er svo sem ekkert óeðlilegt við það og spána má sjá í heild sinni hér að neðan.

Það má hins vegar segja að nokkur atkvæði í kosningunni séu mjög óeðlileg og spurning hvort að einhverjir þeirra 36 sem tóku þátt hafi séð spána sem tækifæri fyrir fíflagang eða til að hafa óeðlileg áhrif á niðurstöðurnar. 

Tveir með Tindastól á botninum og tveir með KR á toppnum

Ljóst er að niðurstöður í spánni hafa sín áhrif á umræðuna, að minnsta kosti í upphafi leiktíðar, og því auðveldara fyrir lið að „koma á óvart“ ef þeim er spáð slöku gengi eða „valda vonbrigðum“ ef þeim er spáð ofarlega.

Í spánni í ár settu til að mynda tveir aðilar hið ógnarsterka lið Tindastóls í 12. sæti, á meðan að aðrir spáðu liðinu í 1.-5. sæti. Tveir spáðu líka föllnu stórveldi KR efsta sæti á meðan að aðrir settu liðið í 6.-12. sæti.

Einn spáði nýliðum Hauka efsta sætinu og annar spáði ÍR efsta sætinu, þó að ÍR hafi á endanum fengið fæst stig og þannig endað neðst í spánni. Haukar fengu atkvæði í öll sæti nema 2. sæti en flestir spáðu nýliðunum í 7.-12. sæti. Allir nema einn settu svo ÍR í 9.-12. sæti.

Svona spáðu þeir 36 sem tóku þátt fyrir um gengi ÍR. Einn setti liðið í efsta sæti.KKÍ

Hér að neðan má sjá spána í heild (Hámark 432 stig, lágmark 36):

  1. Keflavík 402 stig
  2. Tindastóll 363 stig
  3. Njarðvík 329 stig
  4. Valur 300 stig
  5. Þór Þ. 287 stig
  6. Stjarnan 280 stig
  7. Breiðablik 204 stig
  8. Haukar 165 stig
  9. Grindavík 158 stig
  10. KR 154 stig
  11. Höttur 87 stig
  12. ÍR 79 stig



Fleiri fréttir

Sjá meira


×