Erlent

Hvetja bresk stjórn­völd til að endur­skoða skatta­lækkunar­á­form

Kjartan Kjartansson skrifar
Kona gengur fram hjá fyrirsögn sem segir að pundið sé í sögulegri lægð vegna skattalækkanaáforma ríkisstjórnarinnar í London í gær.
Kona gengur fram hjá fyrirsögn sem segir að pundið sé í sögulegri lægð vegna skattalækkanaáforma ríkisstjórnarinnar í London í gær. AP/Frank Augstein

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hvetur bresku ríkisstjórnina til að endurskoða áform sín um stórfelldar skattalækkanir. Hagfræðingar sjóðsins vara við því að aðgerðin verði eldsneyti á frekara verðbólgubál og magni upp ójöfnuð.

Ríkisstjórn Liz Truss kynnti áform um 45 milljarða punda skattalækkanir til að koma hjólum atvinnulífsins í gang á föstudag. Ekki er gert ráð fyrir neinum niðurskurði ríkisútgjalda á móti og ríkisstjórnin lagði ekki mat á kostnað við lækkunina. Gagnrýnendur telja þær munu auka skuldir ríkissjóðs og verðbólgu sem er þegar sú mesta í nærri því fjörutíu ár.

Í yfirlýsingu sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sendi frá sér kom fram að sjóðurinn mælti ekki með stórum og almennum útgjaldapökkum í ljósi mikils verðbólguþrýstings víða. Mikilvægt væri að fjármálaáætlanir stjórnvalda stönguðust ekki á við peningamálastefnuna. Líklegt væri að skattalækkanirnar í Bretlandi ættu eftir að auka ójöfnuð.

Breska stjórnin hefur boðað ítarlegri fjármálaáætlun og sjálfstætt kostnaðarmat fyrir 23. nóvember. Hún segist vinna að því að efla hagkerfið til að bæta lífsgæði allra. Sjóðurinn segir að þá gefist henni tækifæri til að endurskoða skattalækkanirnar og leggja fram markvissari aðgerðir, sérstaklega skattalækkanir sem gagnast þeim tekjuhæstu.

Gengi breska pundsins féll eftir yfirlýsingu AGS í morgun en það hefur aldrei staðið eins veikt gegn Bandaríkjadollara og nú.

Breskar fjármálastofnanir skrúfuðu fyrir útlán til fasteignakaupa eða fækkuðu lánavalkostum tímabundið vegna efnahagsaðgerða ríkisstjórnarinnar í gær. Seðlabanki Englands boðar að hann muni hækka stýrivexti eins mikið og þurfa þykir til að ná böndum á verðbólguna í landinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.