Tónlist

Skrifstofu Sony á Íslandi lokað

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Arnór Dan Arnarson var viðskiptastjóri hjá Sony en lætur af störfum í lok október.
Arnór Dan Arnarson var viðskiptastjóri hjá Sony en lætur af störfum í lok október. Getty/picture alliance, LinkdIn/Arnór Dan Arnarson

Skrifstofa Sony Music á Íslandi hættir formlega störfum þann 31. október næstkomandi vegna stefnubreytingar hjá Sony Music Entertainment. Dreifing á íslenskum útgáfum verður þá í höndum Sony í Kaupmannahöfn.

Í tilkynningu frá Sony á Íslandi kemur fram að breytingarnar muni ekki hafa nein áhrif á núgildandi samninga hjá fyrirtækinu.

Sony þakkar starfsfólki skrifstofunnar fyrir vel unnin störf og hæfileikaríku tónlistarfólki hérlendis fyrir sköpun sína.

Logi Pedro, tónlistarmaður með meiru er með dreifingarsamning við Sony Music á Íslandi.  

Aðspurður hvort lokunin muni hafa einhver áhrif á hann segir Logi að auðvitað sé leiðinlegt þegar stöðugildi hverfi í viðkvæmum bransa en tíminn einn leiði í ljós hvort þetta muni hafa einhver áhrif. Hann efist þó um að tilfærslan hafi áhrif á hans starfsemi. Hann segist hafa átt gott samstarf með Sony hér á landi. 

Arnór Dan Arnarson, Anna Jóna Dungal og Pétur Finnbogason voru starfsfólk Sony Entertainment hér á landi og láta þau af störfum þann 31. október næstkomandi.

Tilkynninguna frá Sony Music Entertainment í Danmörku má lesa hér að neðan. 

„Við viljum upplýsa ykkur að frá og með 31. október 2022 mun starfsemi Sony Music skrifstofunnar á Íslandi formlega hætta störfum vegna stefnubreytingar hjá Sony Music Entertainment. Þessi breyting mun ekki hafa nein áhrif á þá samninga sem nú þegar eru í gildi hjá fyrirtækinu, nema hér eftir munu allir þættir dreifingar á íslenskum útgáfum vera í höndum dönsku skrifstofunnar í Kaupmannahöfn.

Við viljum fyrst og fremst þakka því hæfileikaríka tónlistarfólki sem treyst hafa okkur fyrir sköpun sinni en einnig nýta tækifærið og þakka Arnóri Dan Arnarsyni fyrir stórkostlega vinnu og uppbyggingu Sony Music Iceland undanfarin 5 ár. Án hans ástríðu, hæfni og vinnusemi hefði Sony Music Iceland aldrei tekist á loft en framlag hans og stuðningur til íslensk tónlistarlífs er ómetanlegur.

Einnig viljum við þakka Önnu Jónu Dungal og Pétri Finnbogasyni fyrir þeirra mikilvæga framlag og fyrir að hafa mótað sterkt teymi innan íslensku skrifstofunnar.“

Fréttin hefur verið uppfærð. 


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.