Körfubolti

Bólusetningartregðan kostaði Irving hundrað milljónir Bandaríkjadala

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kyrie Irving bindur ekki bagga sína sömu hnútum og samferðamennirnir.
Kyrie Irving bindur ekki bagga sína sömu hnútum og samferðamennirnir. getty/Dustin Satloff

Kyrie Irving, leikmaður Brooklyn Nets í NBA-deildinni í körfubolta, segir að tregða sín við að láta bólusetja sig fyrir kórónuveirunni hafi kostað sig samning upp á rúmlega hundrað milljónir Bandaríkjadala.

Irving neitaði að þiggja bólusetningu og gat fyrir vikið ekki spilað heimaleiki Brooklyn í New York og heldur ekki í þeim ríkjum þar sem bólusetning var skilyrði fyrir þátttöku í leikjum.

Að sögn Irvings kom bólusetningartregða hans í veg fyrir að hann fengi risa stóran samning.

„Ég gaf frá mér fjögurra ára og hundrað og eitthvað milljóna Bandaríkjadollara samning til að vera óbólusettur og þetta var ákvörðunin. Fá samninginn eða ekki, vera bólusettur eða ekki og það er óvissa með framtíðina, hvort þú verður áfram hjá liðinu eða í deildinni. Ég þurfti að takast á við það að missa mögulega starfið mitt út af þessari ákvörðun,“ sagði Irving á fjölmiðladegi Brooklyn.

Irving vonaðist til að gengið yrði frá samningsmálum hans fyrir síðasta tímabil en það gekk ekki eftir.

„Það gerðist ekki vegna bólusetningarstöðunnar. Ég skildi afstöðu þeirra og þurfti að lifa með því. En það var erfitt að sætta sig við það,“ sagði Irving.

Sean Marks, framkvæmdastjóri Brooklyn, sagðist ekkert til í því að félagið hefði sett Irving afarkosti vegna bólusetningar. Málið hafi hins vegar flækst umtalsvert þegar bólusetningarreglur í New York voru hertar.

Irving lék aðeins 29 leiki með Brooklyn á síðasta tímabili. Í þeim var hann með 27,4 stig, 4,4 fráköst og 5,8 stoðsendingar. Irving kom til Brooklyn frá Boston Celtics fyrir þremur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×