Körfubolti

Þjálfari Boston verður settur í bann fyrir samband við samstarfskonu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ime Udoka bendir leikmönnum Boston Celtics á að hugsa. Hann gerði ekki nógu mikið af því þegar hann var í sambandi við samstarfskonu sína.
Ime Udoka bendir leikmönnum Boston Celtics á að hugsa. Hann gerði ekki nógu mikið af því þegar hann var í sambandi við samstarfskonu sína. getty/Elsa

Ime Udoka stýrir Boston Celtics væntanlega ekki á næsta tímabili. Hann verður settur í bann vegna sambands hans við samstarfskonu.

NBA-véfréttin Adrian Wojnarowski greinir frá því að Udoka verði settur til hliðar og aðstoðarþjálfari Boston, Joe Mazzulla, verði væntanlega við stjórnvölinn hjá liðinu á næsta tímabili.

Þótt sambandið hafi verið með samþykki beggja aðila var það brot á reglum Boston um samskipti starfsfólks. Þrátt fyrir þetta ku starf Udokas ekki vera í hættu.

Udoka tók við Boston af Brad Stevens fyrir síðasta tímabil. Áður var hann aðstoðarþjálfari hjá San Antonio Spurs, Philadelphia 76ers og Brooklyn Nets.

Undir stjórn Udokas komst Boston í úrslit um NBA-meistaratitilinn í fyrsta sinn í tólf ár en tapaði fyrir Golden State Warriors, 4-2.

Boston gekk ekki vel framan af síðasta tímabili en fór síðan á mikið flug og vann 28 af síðustu 35 leikjum sínum í deildarkeppninni. Boston sló svo Brooklyn, Milwaukee Bucks og Miami Heat út á leið sinni í úrslitin.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


×