Skoðun

Börn í kerfinu þola enga bið

Eva Sjöfn Helgadóttir skrifar

Samfélagið hefur nú heyrt hræðilegar og átakanlegar sögur af reynslu kvenna sem hlutu úrræði á Laugalandi í æsku á vegum barnaverndar. Laugaland átti að vera þeim öruggur staður. Að upplifun þeirra hafi verið sem skyldi er óafsakanlegt. Það er nauðsynlegt að samfélagið allt læri af þessari reynslu og tryggi að slíkt geti aldrei aftur átt sér stað.

Framkvæmdastýra barnaverndar í Reykjavíkur steig fram fyrir fáeinum vikum síðan og sagði frá þeim mikla úrræðaskorti sem barnaverndaryfirvöld standa nú frammi fyrir. Skortur sem þessi er ólíðandi, en það er þó ekki aðeins skorturinn sem er slæmur – heldur hafa úrræðin mörg hver ekki þróast mikið síðustu tíu til tuttugu árin.

Barnaverndarkerfið er enn að kljást við skilningsleysi stjórnvalda á mikilvægi þess að veita viðeigandi úrræði hverju sinni. Börn með flókinn geð- og hegðunarvanda eru vanrækt af stjórnvöldum, þrátt fyrir að það sé skýrt hversu mikilvægt það er að setja þau í forgang og tryggja að úrræði séu tiltæk og ekki yfirfull.

Ég beindi fyrirspurn til barna- og menntamálaráðherra á Alþingi fyrr á árinu þar sem ég spurði hvaða fjármunum hefði verið varið til þess að tryggja að sveitarfélög hafi yfir fullnægjandi úrræðum að ráða – og svarið sem barst staðfesti áhyggjur mínar:

„Engar fjárveitingar hafa runnið frá ríki til sveitarfélaga sem er sérstaklega ætlað að koma á fót úrræðum fyrir börn vegna verkefna sem eru á ábyrgð sveitarfélaga.“

Fjársvelt og vanrækt barnaverndarkerfi er ekki barnaverndarkerfi nema að nafninu til – það getur ekki sinnt skyldu sinni og tilgangi, sem er að vernda börn. Þess vegna verðum við að leggja mun meiri orku og fjármagn í að sinna fjölskyldum og börnum í barnaverndarkerfinu. Það er ekki boðlegt að hér á landi séum við ekki að tryggja að börn í mjög viðkvæmri stöðu fái bestu þjónustu sem völ er á.

Vandinn er augljós og viðvarandi en viðbrögðin og viljinn hjá stjórnvöldum eru lítil sem engin. Í ljósi þeirra átakanlegu reynslusagna sem við heyrum í dag frá einstaklingum sem dvöldu á meðferðarheimilum forðum er deginum ljósara hvað er í húfi þegar við tölum um að efla og fjölga úrræðum í kerfinu: það snýst um að tryggja að börn hljóti þá vernd sem þau þurfa til þess að þroskast og dafna í öruggu og heilsusamlegu umhverfi. Það er með öllu óforsvaranlegt að stjórnvöld sýni vandanum svo lítinn áhuga.

Höfundur er varaþingmaður Pírata og barnaverndarstarfsmaður.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.