Körfubolti

„Hjartað á alltaf heima í Keflavík“

Atli Arason skrifar
Birna Valgerður Benónýsdóttir
Birna Valgerður Benónýsdóttir Keflavík.is

Birna Valgerður Benónýsdóttir, leikmaður Keflavíkur, lék sinn fyrsta leik fyrir félagið í kvöld eftir endurkomuna frá Bandaríkjunum. Birna lék í sigri gegn nágrönnunum í Njarðvík, lið sem hún var nálægt því semja við áður hún skrifaði undir hjá Keflavík.

Samkvæmt ýmsum heimildum Vísis þá voru flest lið á Íslandi á eftir Birnu og þ.m.t. Njarðvík. Birna staðfesti í samtali við Vísi, eftir sigur Keflavík á Njarðvík, að hún var nálægt því að semja Njarðvík fyrr í sumar.

„Hvað má maður segja, ég veit það eiginlega ekki. Jú jú, það er vissulega rétt en hjartað á alltaf heima í Keflavík,“ svaraði Birna með stórt bros á vör.

Birna er að koma til Keflavíkur frá Binghamton skólanum í Bandaríkjunum en Birna hefur búið í Bandaríkjunum frá árinu 2019.

„Það tekur smá stund [að aðlagast aftur]. Ég er að koma frá Bandaríkjunum en boltinn er aðeins öðruvísi þar. Þetta er búið að vera mjög skemmtilegt aðlögunarferli en það tekur smá tíma að komast aftur inn í menninguna. Þetta er samt allt að koma.“

Birna spilaði í 25 mínútur gegn Njarðvík í kvöld og gerði alls sjö stig í 23 stiga sigri Keflavíkur, 95-72.

„Mér líður rosalega vel, þetta var mjög skemmtilegur leikur frá A-Ö,“ sagði Birna áður en hún bætti við.

„Liðsheild var góð. Við fengum framlag frá öllum í dag eins og sést þegar stigataflan er skoðuð þá vorum við flestar sem skoruðum. Það var þvílík barátta í vörninni hjá okkur allan tíman og við gjörsamlega keyrðum okkur út.“

Næsti leikur Keflavíkur er á útivelli gegn Breiðablik næsta miðvikudag. Birna segir Keflvíkinga ekkert búnar að skoða Breiðablik en næsta vika verður undirlögð í undirbúning.

„Núna er bara að nústilla sig og einbeita okkur að Blikum. Við erum bara búnar að einbeita okkur að Njarðvík undanfarið en núna munum við einblína á þær,“ sagði Birna Valgerður Benónýsdóttir, leikmaður Keflavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×