Körfubolti

Skalli Martins væri ekki löglegur í dag: „Þetta má víst ekki lengur“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Fáir aðrir en Martin Hermannsson hafa sést skalla boltann sér til gagns á körfuboltavellinum.
Fáir aðrir en Martin Hermannsson hafa sést skalla boltann sér til gagns á körfuboltavellinum. FIBA

Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfubolta, vakti í dag athygli á reglubreytingu sem hefur orðið í alþjóðlegum körfuboltareglum. Martin átti frægan skalla í landsleik Íslands og Portúgal í undankeppni EM fyrir tveimur árum en slíkur skalli telst ekki lengur leyfilegur.

Tilþrif Martins vöktu mikla athygli á sínum tíma, ekki aðeins hér heima. Hann var frambærilegur fótboltamaður áður en hann valdi körfuboltann fram yfir og sýndi að skallatæknin væri ekki grafin og gleymd.

Í atvikinu stal Martin boltanum af leikmanni Portúgals og notaði svo höfuðið til að leggja hann fyrir sig í hratt upphlaup. Þar gaf hann boltann á Kristófer Acox sem setti hann í körfuna.

Slík viljandi notkun höfuðsins til að leika boltanum og bæta stöðu sína gagnvart andstæðingi er nú ekki lengur leyfð. Líklega eru fá önnur dæmi til fyrir slíkri notkun höfuðsins en Martin vakti athygli á þessari breytingu á samfélagsmiðlinum Twitter þar sem hann sagði: Þetta má víst ekki lengur.

Martin er leikmaður Valencia á Spáni en hann hefur verið fjarri góðu gamni frá því að hann sleit krossband í hné í leik með liðinu í vor. Vonast er til að hann snúi aftur á körfuboltavöllinn á nýju ári.

Tíst Martins má sjá að neðan en þar má einnig sjá skallann fræga frá árinu 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×