Handbolti

Meiðsli Gísla „ekki of alvarleg“

Sindri Sverrisson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson og félagar í Magdeburg eiga titil að verja í Þýskalandi í vetur.
Gísli Þorgeir Kristjánsson og félagar í Magdeburg eiga titil að verja í Þýskalandi í vetur. Getty/Hendrik Schmidt

Landsliðsmaðurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson meiddist í hné í leik með meisturum Magdeburgar gegn Göppingen í þýsku 1. deildinni í handbolta á sunnudaginn.

Gísli fékk högg á hægra hnéð þegar örfáar mínútur voru eftir af leiknum og varð að ljúka keppni.

Hafnfirðingurinn fór í rannsóknir á háskólasjúkrahúsinu í Magdeburg í dag en mun þurfa að gangast undir frekari rannsóknir áður en hægt er að segja til um eðli meiðslanna og hve langan tíma hann þarf til að jafna sig, samkvæmt heimasíðu þýska félagsins.

Í samtali við Vísi segir Gísli þó að um „ekki of alvarleg“ meiðsli sé að ræða en þau verða metin betur næstu daga. Hann vonast til að spila strax í næsta leik.

Gísli hefur verið afar óheppinn með meiðsli á sínum ferli en átti stórkostlegt tímabil síðasta vetur sem lauk með því að hann fagnaði þýska meistaratitlinum.

Meiðslin sem ítrekað hafa haldið Gísla frá keppni á hans atvinnumannsferli, sem hófst þegar hann fór frá FH til Kiel árið 2018, hafa hins vegar ekki verið í hné eins og núna heldur í öxl.

Gísli, sem er 23 ára gamall, skoraði þrjú mörk gegn Göppingen og hefur skorað alls tólf mörk og gefið fjórtán stoðsendingar í fyrstu fjórum leikjum tímabilsins, og alltaf fagnað sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×