Körfubolti

Treyja Jordans orðin verðmætasti íþróttaminjagripur sögunnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Treyjan sem Michael Jordan klæddist í úrslitum NBA-deildarinnar árið 1998 er orðinn verðmætasti íþróttaminjagripur sögunnar.
Treyjan sem Michael Jordan klæddist í úrslitum NBA-deildarinnar árið 1998 er orðinn verðmætasti íþróttaminjagripur sögunnar. Alexi Rosenfeld/Getty Images

Chicago Bulls keppnistreyja sem Michael Jordan klæddist í úrslitum NBA árið 1998 varð í nótt dýrasti íþróttaminjagripur sögunnar þegar hún seldist á uppboði fyrir 10,1 milljón dollara.

Það samsvarar um 1,4 milljörðum íslenskra króna, en Sotheby's, sem sá um uppboðið, segir að gripurinn hafi laðað að mikinn áhuga íþróttaunnenda og annarra safnara. Alls bárust tuttugu boð í treyjuna.

Fyrir rúmum mánuði síðan var greint frá því hér á Vísi að treyjan væri á leið á uppboð og þá var hún metin á um fimm milljónir dollara. Hún seldist þó fyrir rúmlega tvöfalt það verð og er því orðin verðmætasti írþóttaminjagripur sögunnar.

Áður en treyja Jordans seldist í gær var treyjan sem argentínski knattspyrnumaðurinn Diego Maradona klæddist í úrslitaleik HM 1986 verðmætasti íþróttaminjagripur sögunnar. Maradona skoraði tvö mörk í þeim leik, þar á meðal líklega frægasta mark sögunnar sem hefur verið nefnt „Hönd Guðs“ eða „The Hand of God“. Sú treyja seldist fyrir um 9,3 milljónir dollara fyrr á þessu ári.

Brahm Wachter, talsmaður Sotheby's, segir að salan á treyjunni staðfesti það endanlega að Michael Jordan sé vissulega merkasti íþróttamaður allra tíma.

„Þetta met sem sett var í dag staðfestir það að Michael Jordan er merkasti íþróttamaður sögunnar og sýnir það að nafn hans og arfleifð skiptir jafn miklu máli í dag og það gerði fyrir 25 árum síðan,“ sagði Wachter.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×