Handbolti

Gísli fyrirliði Magdeburg og tók við bikar í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson tekur hér við bikarnum fyrir hönd SC Magdeburg eftir sigur liðsins í Arendal æfingamótinu.
Gísli Þorgeir Kristjánsson tekur hér við bikarnum fyrir hönd SC Magdeburg eftir sigur liðsins í Arendal æfingamótinu. Instagram/@scmagdeburg

Þýskalandsmeistarar Magdeburgar ætla sér stóra hluti í vetur eftir frábært tímabil í fyrra með tvo íslenska landsliðsmenn í fararbroddi.

Magdeburg tók þátt í æfingamóti í Noregi um helgina og fagnaði þar sigri eftir þriggja marka sigur á Álaborgarliðinu í úrslitaleiknum, 32-29.

Ómar Ingi Magnússon skoraði fimm mörk í leiknum og Gísli Þorgeir Kristjánsson var með þrjú mörk

Íslensku landsliðsmennirnir skoruðu meðal annars fyrstu sex mörkin hjá Magdeburg í leiknum, Ómar fjögur og Gísli tvö.

Álaborg vat 19-16 yfir í hálfleik en stífar æfingar eru greinilega búnar að koma leikmönnum þýska liðsins í toppform því Magdeburg vann seinni hálfleikinn með sex mörkum, 16-10.

Danski landsliðsmaðurinn Magnus Saugstrup var þarna að spila á móti sínum gömlu félögum í Aalborg Håndbold og stal meðal annars fjórum boltum af danska liðinu sem skilaði sér í hraðaupphlaupum.

Magdeburg vann öruggan 40-23 sigur á gestgjöfum ØIF Arendal í undanúrslitaleiknum þar sem Gísli skoraði fimm mörk en Ómar Ingi komst ekki á blað.

Leikur SC Magdeburg og Aalborg Håndbold var úrslitaleikur æfingamótsins í Arendal í Noregi og það var bikar í boði.

Eftir leikinn var það Gísli sem steig fram og tók við bikarnum sem fyrirliði Magdeburgarliðsins eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×