Innlent

Vægasti skammtur mela­tóníns verði ekki lyf­seðils­skyldur

Bjarki Sigurðsson skrifar
Melatónín hefur hingað til einungis hægt að versla hér á landi sem lyf.
Melatónín hefur hingað til einungis hægt að versla hér á landi sem lyf. Getty

Melatónín í lægri styrk en eitt milligramm á dag verður ekki lengur flokkað sem lyf heldur fæðubótarefni samkvæmt svari Lyfjastofnunar við álitsbeiðni Matvælastofnunar (MAST). Melatónín í hærri styrk en það verður áfram flokkað sem lyf.

MAST sendi Lyfjastofnun álitsbeiðni þann 19. júlí síðastliðinn um hvort melatónín skyldi enn flokkast sem lyf og lýsti stofnunin þar með yfir vilja með því að endurskoða skilgreininguna.

„Matvælastofnun telur mikilvægt að endurskoða þessa skilgreiningu þar sem efnið er nú þegar leyfilegt, að ákveðnum hámarksstyrk, sem fæðubótarefni í ýmsum Evrópulöndum,“ sagði í tilkynningu frá MAST þegar álitsbeiðnin var send.

Víða um heim er heimilt að selja melatónín, sem er náttúrulegt hormón, sem fæðubótarefni. Á síðustu árum hafa nokkur Norðurlandanna hafið að leyfa það. Í svari Lyfjastofnunar segir að þessar mismunandi reglur milli landa hafi valdið ruglingi hjá notendum sem hafa keypt melatónín löglega erlendis en ekki verið heimilt að taka það hingað til lands.

Ákveðin skilyrði

„Lyfjastofnun hefur nú sent svar til MAST með þeirri niðurstöðu að fæðubótarefni sem inniheldur 1 mg eða minna af melatóníni í dagskammti falli ekki undir skilgreiningu á lyfi, að því gefnu að við markaðssetningu vörunnar sé hún ekki sögð búa yfir eiginleikum sem koma að gagni við meðferð sjúkdóma hjá mönnum eða sem forvörn gegn sjúkdómum,“ segir í svari Lyfjastofnunar.

Vara sem inniheldur melatónín og hefur á umbúðum fullyrðingar um gagnsemi sem meðferð við sjúkdómi, getur ekki talist sem fæðubótarefni, óháð styrkleika melatóníns í vörunni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.