Enski boltinn

Þjálfari Fulham söng Mitrovic lofsöngva: „Ekki bara mörk“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Marco Silva var ánægður með sinn mann í dag.
Marco Silva var ánægður með sinn mann í dag. James Williamson - AMA/Getty Images

Marco Silva, þjálfari Fulham, var eðlilega sáttur við stigið er liðið gerði 2-2 jafntefli gegn Fulham í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Hann var sérstaklega ánægður með Aleksandar Mitrovic, en Serbinn skoraði bæði mörk liðsins.

Þessi 27 ára serbneski framherji var allt í öllu í sóknarleik Fulham í dag, en ásamt því að skora mörkin tvö fiskaði hann einnig vítaspyrnuna sem hann svo skoraði sjálfur úr.

Þá var hann einnig oft á tíðum mjög hættulegur fram á við og áttu varnarmenn Liverpool í stökustu vandræðum með að hemja þennan stóra og stæðilega framherja.

Marco Silva var eins og áður segir kátur í leikslok þegar hann mætti í viðtal. Þar fór hann stuttlega yfir leikinn áður en hann hrósaði Mitrovic sérstaklega fyrir sitt framlag.

„Við verðum að bera virðingu fyrir Liverpool, en auðvitað þurfum við að vinna okkar vinnu og treysta á okkur sjálfa,“ sagði Silva í leikslok.

„Við áttum frábæran fyrri hálfleik, nánast fullkominn miðað við hvað við stjórnuðum mikið. Svo í seinni hálfleik þá mættum við þeim einnig mjög vel.“

„Ég veit vel hvaða gæðum Mitrovic býr yfir og ég er hér til að reyna að ná sem mestu út úr mínum leikmönnum. Mitrovic er ekki bara mörk, heldur setur hann alltaf pressu á andstæðingana og hann átti frábæran leik í heild í dag.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.