Innlent

Hefur engar á­hyggjur af hunda­sjúk­dómi sem getur smitast í menn

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Guðrún Aspelund er starfandi sóttvarnalæknir á meðan Þórólfur Guðnason er í fríi.
Guðrún Aspelund er starfandi sóttvarnalæknir á meðan Þórólfur Guðnason er í fríi. vísir/arnar

Starfandi sótt­varna­læknir segir að bakterían sem grunur leikur á að hafi greinst í hundi hér á landi í fyrsta skipti smitist mjög ó­lík­lega yfir í menn þó hún geti það vissu­lega. Hún hefur ekki á­hyggjur af stöðunni sem Mat­væla­stofnun hafi þegar náð vel utan um.

Greint var frá því í dag að sterkur grunur léki á að hér á landi hefði greinst Brucella canis baktería í hundi, á ís­lensku heita bakteríur af þessari gerð öldu­sótt. Bakterían er svo­kölluð súna, það er sjúk­dómur sem getur borist frá dýrum yfir í menn.

„Þetta er eitt­hvað sem að hefur ekki greinst hér á landi áður og þess vegna er verið að gera sér­stak­lega við­vart um það en það er ekki lík­legt að þetta berist í fólk, það getur gerst en það er mjög sjald­gæft,“ segir Guð­rún Aspelund, starfandi sótt­varna­læknir.

Og enginn grunur um það núna að það sé búið að gerast eða hvað?

„Nei, það er enginn grunur um það.“

Hundurinn sem er lík­lega smitaður hefur verið notaður til ræktunar hér á landi en sam­kvæmt heimildum frétta­stofu kom hann til landsins frá Úkraínu fyrir fá­einum árum. Helsta smit­leið sjúk­dómsins er ein­mitt við pörun eða náið sam­neyti milli hunda.

Mat­væla­stofnun vinnur nú að því að rekja sam­skipti hundsins við aðra hunda og koma til­mælum til eig­enda um heima­sótt­kví dýranna.

Helsta ein­kenni sjúk­dómsins hjá hundum eru fóstur­lát seint á með­göngu­tíma, and­vana eða veik­burða hvolpar sem oft drepast fljót­lega og bólgur í eistna­lyppum hjá rökkum.

Í þeim fáu til­fellum sem sjúk­dómurinn hefur greinst í mann­fólki hafa ein­kennin verið væg; hiti, hrollur, van­líðan, lystar­leysi, bein- eða vöðva­verkir og eitla­stækkanir.

Þannig það er engin á­stæða til að hafa neinar á­hyggjur af þessum sjúk­dómi eins og staðan er núna eða hvað?

„Nei, mér finnst ekki nein á­stæða til að hafa á­hyggjur eins og er. Þetta er eitt­hvað sem við þurfum bara að stað­festa og ef það kemur í ljós að þetta er þessi sjúk­dómur þá held ég að sé búið að grípa inn í nú þegar og ég myndi ekki hafa neinar á­hyggjur af því,“ segir Guð­rún.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×