Körfubolti

Ísland tryggði sér sæti í A-deild

Hjörvar Ólafsson skrifar
Baldur Þór Ragnarsson og lærisveinar hans eru komnir í úrslit. 
Baldur Þór Ragnarsson og lærisveinar hans eru komnir í úrslit.  Mynd/KKÍ

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta skipað leikmönnum 20 ára og yngri er komið í úrslitaleik B-deildar Evrópumótsins en íslenska liðið tryggði sér farseðilinn þangað með sigri gegn Finnlandi í kvöld. 

Lokatölur í leiknum urðu 94-77 Íslandi í vil en leikið var í Tblisi í Georgíu. Íslenska liðið mætir Serbum í úrslitaleiknum. Serbía bar sigurorð af Eistlandi í hinum undanúrslitaleiknum í dag. 

Orri Gunnarsson, leikmaður Hauka, var stigahæsti leikmaður íslenska liðsins í þessum leik með 27 stig.

Friðrik Anton Jónsson, sem leikur með Álftanesi, kom næstur með 15 stig. Blikinn Sigurður Pétursson setti svo niður 14 stig og KR-inguurinn Þorvaldur Orri Árnason 10 stig. 

Stigaskora annarra leikmanna Íslands í leiknum: Ólafur Gunnlaugsson 9, Óli Gunnar Gestsson 6, Hugi Hallgrímsson 4, Ástþór Svalason 3, Hilmir Hallgrímsson 3, Sveinn Búi Birgisson 2 og Ólafur Styrmisson 1.

Þrjú efstu liðin á mótinu leika í A-deild næst þegar keppt verður á Evrópumótinu þannig að Ísland hefur tryggt sér þátttökurétt í A-deildinni. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.