Handbolti

Evrópubikarkeppnin sendir Eyjamenn til Ísrael

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Eyjamenn mæta ísraelska liðinu Holon HC í Evrópubikarkeppni karla í handbolta.
Eyjamenn mæta ísraelska liðinu Holon HC í Evrópubikarkeppni karla í handbolta. Vísir/Hulda Margrét

ÍBV mun leika gegn ísraelska liðinu Holon HC í fyrstu umferð Evrópubikarkeppni karla í handbolta. Dregið var í höfuðstöðvum evrópska handknattleikssambandsins, EHF, í morgun.

ÍBV er ekki eina íslenska liðið sem skráð er til leiks, en Haukar og KA verða einnig fulltrúar Íslands. Haukar og KA sitja þó hjá í fyrstu umferð og voru því ekki í pottinum þegar dregið var í morgun.

Þetta verðir í þriðja sinn sem Eyjamenn mæta ísraelsku liði á seinustu sjö árum. Árið 2015 mætti liðið Hapoel Ramat Gan og árið 2018 dróst liðið á móti SGS Ramhat Hashron HC. Það er Handbolti.is sem bendir okkur á þessa skemmtilegu staðreynd.

Leikir fyrstu umferðarinnar fara fram aðra og þriðju helgina í september. Eyjamenn munu að öllu óbreyttu leika fyrri leik viðureignarinnar á heimavelli. Það gæti þó breyst þar sem ekki er óþekkt að lið selji heimaleiki sína í keppnum sem þessari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×