Handbolti

Íslensku strákarnir upp úr milliriðili eftir risasigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Benedikt Gunnar Óskarsson hefur spilað frábærlega fyrir íslenska liðið.
Benedikt Gunnar Óskarsson hefur spilað frábærlega fyrir íslenska liðið. HSÍ

Íslenska U20 ára landsliðið í handbolta vann afar öruggan 13 marka sigur er liðið mætti Króatíu í seinni leik milliriðilsins á EM sem fram fer í Portúgal. Lokatölur 33-20, en sigurinn þýðir að íslenska liðið mun leika um 9.-12. sæti mótsins.

Íslensku strákarnir settu tóninn snemma og skoruðu fyrstu sjö mörk leiksins. Ísland náði mest átta marka forskoti í fyrri hálfleik, en króatíska liðið vaknaði aðeins til lífsins í stöðunni 10-2 og hleypti íslensku strákunum ekki lengra fram úr sér fyrir hlé. Ísland leiddi með sex mörkum þegar gengið var til búningsherbergja, 16-10.

Síðari hálfleikur hófst svo á svipaðan hátt og sá fyrri. Íslenska liðið skoraði fyrstu sex mörk seinni hálfleiksins og gerðu í raun út um leikinn um leið. Íslensku strákarnir léku á als oddi og náðu hvorki meira né minna en 15 marka forskoti þegar um tíu mínútur voru til leiksloka í stöðunni 30-15. Króatíska liðið sá aldrei til sólar og íslensku strákarnir unnu að lokum afar sannfærandi sigur, 33-20.

Markahæstur í liði Íslands var Andri Már Rúnarsson með sex mörk. Adam Thorstensen átti frábæran leik í markinu og vari 14 af þeim 26 skotum sem hann fékk á sig, en það gerir tæplega 54 prósent hlutfallsmarkvörslu.

Ísland er því á leið í krossspil til að ákvarða hvort liðið muni leika um 9. eða 11. sæti mótsins. Ísland mun mæta annaðhvort Færeyjum eða Slóveníu, en 11 efstu sæti mótsins gefa sæti á HM á næsta ári.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.