Handbolti

Færeyingar höfðu betur gegn Dönum í fyrsta skipti í sögunni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elias Ellefsen á Skipagötu var markahæsti maður Færeyinga í fræknum sigri gegn Dönum.
Elias Ellefsen á Skipagötu var markahæsti maður Færeyinga í fræknum sigri gegn Dönum. hsf.fo

Færeyingar gerðu sér lítið fyrir og unnu sögulegan sigur gegn Dönum er liðin mættust á Evrópumeistaramóti U20 ára landsliða í handbolta í dag. Lokatölur 33-32, en Færeyskt landslið hefur aldrei áður unnið sigur gegn dönsku landsliði í keppnisleik.

Ekki nóg með það að Færeyingar hafi aldrei unnið Dani áður í keppnisleik í handbolta, heldur höfðu þeir aldrei áður unnið nágranna sína í keppnisleik í fótbolta, körfubolta, blaki eða íshokkí.

Leikurinn í dag var jafn og spennandi frá upphafi til enda og liðin skptust á að hafa forystuna. Þegar flautað var til hálfleiks var staðan jöfn, 15-15.

Danir hófu leikinn betur í síðari hálfleik og náðu fljótt fjögurra marka forskoti í stöðunni 20-16. Færeyingar gáfust þó ekki upp og jöfnuðu metin á ný skömmu síðar. Færeyingar náðu svo forystunni um miðbik seinni hálfleiks og hana létu þeir aldrei af hendi. Færeyingar unnu að lokum sögulegan eins marks sigur, 33-32, og eru því með tvö stig eftir fyrsta leik sinn á þessu Evrópumóti.

Arnór Atlason þjálfar danska liðið, en Danir eru án stiga.

Markahæstur í liði Færeyinga var Elias Ellefsen á Skipagötu með níu mörk. Maður leiksins var hins vegar markvörður liðsins, Pauli Jacobsen, en hann fór á kostum í síðari hálfleik og varði í heildina 15 skot.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.