Körfubolti

Dauð­skelkuð Griner biðlar til Banda­ríkja­for­seta: Gerðu það, ekki gleyma mér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brittney Griner hefur ekkert getað spilað með Phoenix Mercury því hún hefur dúsað í fangelsi í Moskvu síðan í febrúar.
Brittney Griner hefur ekkert getað spilað með Phoenix Mercury því hún hefur dúsað í fangelsi í Moskvu síðan í febrúar. Getty/Christian Petersen/

Bréf frá bandarísku körfuboltakonunni Brittney Griner, skrifað í fangelsi í Rússlandi, komst alla leið í Hvíta húsið. Bandarískir fjölmiðlar fengu að birta brot úr því á Þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna 4. júlí.

Griner hefur verið í haldi í Rússlandi síðan hún var handtekin á flugvellinum í Moskvu fyrir að vera með hassolíu í sínum förum en hana notaði Griner í rafrettu sína.

Það kom ekki fram hvernig bréfið komst úr fangelsinu í Moskvu alla leið í Hvíta húsið í Washington DC. Fjölmiðlar fengu heldur ekki afrit af öllu bréfinu heldur aðeins brot úr því. Það sem er vitað er að í þessu bréfi biðlaði Griner beint til Joe Biden Bandaríkjaforseta.

„Ég er dauðskelkuð um að ég verði hér alla tíð,“ skrifaði Brittney Griner.

Griner er ein besta körfuboltakona heims, 206 sentímetra miðherji sem hefur bæði orðið WNBA-meistari sem og verið stigahæsti leikmaður WNBA deildarinnar í tvígang. Hún hefur líka átta sinnum varið flest skot á tímabili og þrisvar sinnum verið kosin í úrvalslið ársins.

Réttarhöldin yfir Griner hófust síðastliðinn föstudag. Lögfræðisérfræðingar og bandarískir fulltrúar hafa sagt að réttarhöldin séu í raun aðeins sýndarréttarhöld og því löngu ljóst að hún verði dæmd sek og í langt fangelsi.

„Ég átta mig á því að þú ert að glíma við marga hluti en gerðu það ekki gleyma mér og hinum sem eru líka í gæsluvarðhaldi,“ skrifaði Griner.

Griner handskrifaði bréfið og þar nefnir hún meðal annars að faðir hennar hafi verið í Víetnam.

„Fjórða júlí, heiðrar mín fjölskylda vanalega þá sem börðust fyrir frelsi okkar og meðal þeirra er faðir minn sem barðist í Víetnam. Það er mjög sárt að hugsa um það hvernig ég held vanalega upp á þennan dag því frelsi þýðir eitthvað allt annað fyrir mig í dag,“ skrifaði Griner.

„Ég kaus í fyrsta sinn árið 2020 og þá kaus ég þig. Ég trúi á þig. Ég á enn svo margt gott eftir að láta af mér leiða og þú getur hjálpað mér að geta það. Ég sakna eiginkonu minnar. Ég sakna fjölskyldunnar. Ég sakna liðsfélaganna. Það er mjög erfitt að vita að þeir eru ganga í gegnum þetta kvalræði. Ég er þakklát fyrir allt sem þú getur gert til að hjálpa mér að komast heim,“ skrifaði Griner.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.