Handbolti

Arnar þriðji Íslendingurinn sem skiptir til Ribe í sumar

Sindri Sverrisson skrifar
Arnar Birkir Hálfdánsson er orðinn leikmaður Ribe-Esbjerg.
Arnar Birkir Hálfdánsson er orðinn leikmaður Ribe-Esbjerg. Ribe-Esbjerg

Örvhenta skyttan Arnar Birkir Hálfdánsson hefur skrifað undir samning til tveggja ára við danska úrvalsdeildarfélagið Ribe-Esbjerg.

Þar með er ljóst að þrír Íslendingar flytja til Ribe í sumar. Áður hafði verið greint frá því að markvörðurinn Ágúst Elí Björgvinsson kæmi til félagsins frá Kolding og að Elvar Ásgeirsson kæmi frá Nancy í Frakklandi.

Arnar kemur til Ribe frá Aue í Þýskalandi þar sem hann skoraði 229 mörk á tveimur leiktíðum í næstefstu deild. Hann þekkir vel til í dönsku úrvalsdeildinni eftir að hafa leikið þar með SönderjyskE í tvö ár á árunum 2018-20 þegar hann skoraði þar 125 mörk.

Samkvæmt heimasíðu Ribe er Arnar hugsaður sem hægri hornamaður hjá liðinu, til stuðnings við Mathias Jörgensen sem spilað hafi 60 mínútur í hverjum leik síðustu tvö tímabil. Þjálfarinn Anders Thomsen segir að Arnar gegni tveimur hlutverkum, sem félagi Jörgensen í horninu og sem skytta ásamt þeim Marcus Dahlin og Simon Birkefeldt. 

„Ég sný núna aftur í enn sterkari deild og ætla að taka þátt í að ná markmiðum Ribe Esbjerg um að komast aftur í úrslitakeppnina. Ég hlakka til að takast á við áskorunina,“ sagði Arnar Birkir.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.