Handbolti

Lærisveinar Aðalsteins hófu úrslitaeinvígið á stórsigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Aðalsteinn Eyjólfsson, þjálfari Kadetten.
Aðalsteinn Eyjólfsson, þjálfari Kadetten. Getty/Andreas Gora

Aðalsteinn Eyjólfsson og lærisveinar hans í Kadetten Schaffhausen unnu öruggan ellefu marka sigur er liðið tók á móti Pfadi Winterthur í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvígi svissnesku deildarinnar í handbolta í kvöld, 30-19.

Heimamenn í Kadetten bjuggu sér til forskot jafnt og þétt í fyrri hálfleiknum og fóru með fimm marka forystu inn í hléið, staðan 15-10.

Liðið gaf svo ekkert eftir í síðari hálfleik og náði loks tíu marka forskoti í stöðunni 27-17 þegar tæpar fimm mínútur voru til leiksloka. Kadetten vann að lokum öruggan ellefu marka sigur, 30-19, og liðið er því búið að taka forystu í einvíginu.

Aðalsteinn og lærisveinar hans urðu deildarmeistarar í svissnesku deildinni á tímabilinu, en Pfadi Winterthur hafnaði í öðru sæti. Annar leikur liðanna fer fram næstkomandi sunnudag, en vinna þarf þrjá leiki til að tryggja sér svissneska meistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×