Körfubolti

Kristó: Pavel var bara í Angry Birds

Atli Arason skrifar
Pavel spilar Angry Birds til að róa taugarnar.
Pavel spilar Angry Birds til að róa taugarnar. Samsett - Vilhem & Bára

Eins og flestum er kunnugt er Valur Íslandsmeistari karla í körfubolta eftir æsispennandi úrslitaeinvígi við Tindastól. Kristófer Acox, leikmaður Vals, rifjaði upp eftirminnileg atvik úr úrslitaeinvíginu í hlaðvarpsþætti.

Valur tapaði leik fjögur á Sauðárkróki þar sem Pétur Rúnar Birgisson, leikmaður Tindastóls, skorar lokakörfuna í framlengdum leik þegar hann nær að komast inn í sendingu frá Pavel Ermolinskij, leikmanni Vals, sem ætluð var samherja hans, Kristófer. Sá síðarnefndi var bálreiður í leikslok.

„Klefinn var þungur eftir leik, ég man að ég sá rautt því ég var svo pirraður. Svo lít ég upp og sé að Pavel var í Angry Birds í símanum sínum út í horni. Þá bara hristi maður hausinn og hló inn í sér því Pavel var þarna bara að dreifa huganum, mættur í Angry Birds. Hann er náttúrlega alveg geggjaður,“ sagði Kristófer í hlaðvarpsþættinum Undir Körfunni en þátturinn verður aðgengilegur á allra næstu dögum.

„Við vissum að við fengum auka séns, að fara heim og spila fyrir framan okkar fólk.“

Leikmenn Vals voru staðráðnir að láta þetta tap ekki sitja í sér en þeir unnu síðan oddaleikinn á heimavelli og hömpuðu Íslandsmeistaratitlinum.

„Þetta sveið mikið en svona virkar körfuboltinn. Maður þarf að vinna þrjá leiki þannig við pössuðum okkur að fara ekki of langt niður,“ sagði Kristófer Acox.

Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×