Handbolti

Leiðin liggur af Nesinu í Úlfarsárdalinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólafur Brim Stefánsson var burðarás í liði Gróttu um tveggja ára skeið.
Ólafur Brim Stefánsson var burðarás í liði Gróttu um tveggja ára skeið. vísir/hulda margrét

Fram heldur áfram að safna liði fyrir næsta tímabil og hefur nú sótt annan leikmann frá Gróttu. Í síðustu viku samdi Ívar Logi Styrmisson við Fram og nú hefur Ólafur Brim Stefánsson farið sömu leið.

Ólafur skrifaði undir tveggja ára samning við Fram. Auk þeirra Ívars hafa Framarar fengið Svartfellinginn Luka Vukicevic og Króatann Marko Coric. Fram hefur aftur á móti misst Færeyingana Rógva Dal Christiansen og Vilhelm Poulsen.

Ólafur er uppalinn hjá Val en hefur leikið með Gróttu undanfarin tvö tímabil. Hann var í stóru hlutverki hjá Gróttu, bæði í vörn og sókn. Ólafur var til að mynda þriðji markahæsti leikmaður Seltirninga á síðasta tímabili með 92 mörk.

Fram endaði í 8. sæti Olís-deildarinnar á síðasta tímabili en tapaði 2-0 fyrir Val í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar. Grótta endaði aftur á móti í 10. sæti.

Á næsta tímabili byrjar Fram að spila á nýjum heimavelli sínum í Úlfarsárdal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×