Skoðun

Bíðum ekki eftir fram­tíðinni

Davíð Þorláksson skrifar

Því er stundum haldið fram að fjárfesting í almenningssamgöngum sé óþörf því sjálfkeyrandi bílar séu handan við hornið og þeir muni koma í stað almenningssamgangna og leysa úr umferðartöfum. Þeir sömu vilja þó gjarnan fjárfesta enn meira í mannvirkjum fyrir einkabíla, sem hlýtur að fela í sér þversögn. Þegar internetið var að ná fótfestu á tíunda áratugnum spáðu sum því að fljótlega þyrfti ekki að byggja upp samgöngumannvirki eða verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Allir yrðu heima hjá sér að vinna og versla. Þrátt fyrir áframhaldandi þróun netsins og nýlegar samkomutakmarkanir, sem hefur gert okkur kleift að gera margt að heiman, er langur vegur frá því að umferðartafir eða eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði séu að stórminnka.

Það er full ástæða til að fylgjast með tækniþróun þegar kemur að ökutækjum og aðlaga áætlanir að þeim þegar þörf krefur. Við langtímaskipulag samgangna getum við hins vegar ekki gefið okkur að ný tækni eða ný menning breyti meginforsendum frá því sem er í dag. Ef sú forsenda klikkar, að það sé hvort sem er allt að breytast og að nútíminn geti bara hinkrað og beðið eftir framtíðinni, þá yrði aldrei fjárfest í neinu. Mér er ekki kunnugt um neina borg í Evrópu sem hefur tekið upp þá stefnu að hætta að fjárfesta í samgöngum því að sjálfkeyrandi bílar muni leysa allan vanda. Þvert á móti leggja þær nær allar áherslu á fjárfestingu í fjölbreyttum ferðamátum, yfirleitt fyrst og fremst almenningssamgöngum.

Sjálfkeyrandi bílar og sjálfkeyrandi almenningssamgöngur munu koma einhvern tímann. Væntanlega er styttra í að almenningssamgöngur í sérrými, eins og Borgarlínan, verði sjálfkeyrandi en bílar í blandaðri umferð. Við megum þó ekki ofmeta áhrif tækni- og menningarbreytinga og þurfum mjög reglulega að endurskoða áætlanir og áform með hliðsjón af þróun sem er í hendi. Við þurfum að halda áfram að spá í framtíðina og undirbúa okkur fyrir hana, en megum ekki sitja með hendur í skauti og búast við því að hún muni leysa öll okkar vandamál.

Höfundur er framkvæmdastjóri Betri samgangna ohf.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×