Körfubolti

Tímabilinu lokið hjá Valencia sem var heillum horfið án Martins

Valur Páll Eiríksson skrifar
Spilamennsku Valencia fór hrakandi eftir að Martin fór meiddur af velli.
Spilamennsku Valencia fór hrakandi eftir að Martin fór meiddur af velli. Mike Kireev/NurPhoto via Getty Images

Valencia þurfti að þola 59-76 tap fyrir Baskonia í oddaleik liðanna í 8-liða úrslitum spænsku deildarinnar í körfubolta í kvöld. Meiðsli Martins Hermannssonar settu svartan blett á leik kvöldsins.

Allt var undir í kvöld þar sem ljóst var fyrir leik að Real Madrid biði sigurliðsins í undanúrslitum en tapliðið færi í sumarfrí.

Valencia byrjaði af miklum krafti og leiddi 20-9 eftir fyrsta leikhlutann. Baskonia vann sig inn í leikinn þegar leið á annan leikhlutann og var staðan 37-31 þegar Martin Hermannsson virtist meiðast illa og var borinn af velli. Hann tók ekki frekari þátt í leiknum.

Baskonia skoraði síðustu þrjú stig hálfleiksins og var staðan 37-34 fyrir heimamenn í leikhléi. Eitthvað virtust meiðsli Martins, eða fjarvera hans, hafa áhrif á Valencia-liðið, þar sem lið Baskonia hélt áfram þar sem frá var horfið í upphafi þriðja leikhluta og komst snemma yfir.

Baskonia leiddi lengst af í þriðja leikhlutanum en Valencia beit frá sér undir lok hans og leiddi 54-53 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann. Aftur náði Baskonia þó fljótt yfirhöndinni og bætti hægt og bítandi við forskot sitt gegn heillum horfnu liði Valencia.

Valencia skoraði aðeins fimm stig í fjórða leikhluta gegn 23 stigum Baskonia sem vann leikinn 76-59 og er því komið í undanúrslit gegn Real Madrid. Tímabili Valencia er aftur á móti lokið.

Á morgun kemur í ljós hvort Badalona eða Tenerife fylgi Baskonia í undanúrslitin. Leikur liðanna hefst klukkan 18:50 á Stöð 2 Sport 2. Sigurliðið mun mæta Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×